Innlent

Sýni úr smituðu lög­reglu­mönnunum voru nei­kvæð á mánu­dag

Kristín Ólafsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Vísir/Magnús Hlynur

Allir lögreglumennirnir sem komu að aðgerðum vegna manna sem komu hingað sem ferðamenn í byrjun júní munu aftur fara í kórónuveirupróf eftir helgi. Sýni úr tveimur lögreglumönnum sem greindust með veiruna í gær voru neikvæð fyrir veirunni síðasta mánudag.

Lögreglan hafði afskipti af þremur mönnum vegna málsins en þeir komu hingað til lands sem ferðamenn og áttu að vera í sóttkví þegar málið kom upp. Tveir mannanna, sem eru rúmenskir ríkisborgarar, reyndust smitaðir og nú er ljóst að þrír lögreglumenn hið minnsta hafa smitast af þeim.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segist aðspurður auðvitað vona að ekki hafi fleiri lögreglumenn smitast í aðgerðunum.

„En þau fóru náttúrulega ellefu í sóttkví og fóru öll í próf á mánudaginn og aftur í próf í gær það bættust þá tveir við, þannig að það er aftur próf á mánudaginn og vonum hið besta. En við erum náttúrulega undirbúin undir hið versta.“

Þannig að þessi sem greindust í gær höfðu greinst neikvæð áður?

„Já, þau greindust neikvæð á mánudaginn. Þetta er áfall fyrir þau og fólkið þeirra og okkur. Við vorum að vonast til þess að þau væru sloppin en það virðist ekki vera svo einfalt.“

Hvernig heilsast þeim sem eru smituð?

„Þau tvö sem greindust í gær eru einkennalaus, enn þá allavega, en sú sem greindist fyrst er með hálsbólgu og eitthvað svona minniháttar.“

Íris Edda Heimisdóttir, lögreglukonan sem smitaðist fyrst af veirunni, sagði í samtali við Vísi á þriðjudag að það hafi verið áfall að greinast með veiruna í starfi. Líf hennar hafi verið sett á ís og það sé erfitt að geta ekki umgengist fjölskyldu sína. Þá lýsti hún veikindunum sem hefðbundinni flensu, með tilheyrandi hálsbólgu og beinverkjum. 

Írís, auk lögreglumannanna hinna lögreglumannanna tveggja, eru nú í einangrun en 25 eru í sóttkví, þar af fjórtán lögreglumenn.


Tengdar fréttir

Tveir lögregluþjónar til viðbótar smituðust

Tveir lögregluþjónar á Suðurlandi hafa greinst með Covid-19 til viðbótar við þann sem greinst hafði áður eftir aðgerðir vegna Rúmenanna sem komu til lands í síðustu viku.

Smituðu lögreglumann á Suðurlandi

Svo virðist sem að Rúmenarnir tveir sem komu hingað til lands í síðustu viku og reyndust smitaðir af kórónuveirunni hafi smitað lögreglumann hjá Lögreglunni á Suðurlandi, en lögreglan þurfti að hafa afskipti af mönnunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×