Erlent

Ferðabann Trump mun einnig ná til Bretlands og Írlands

Eiður Þór Árnason skrifar
Íslendingar mega vænta umtalsverðra efnahagslegra áhrifa af ferðabanni Bandaríkjamanna.
Íslendingar mega vænta umtalsverðra efnahagslegra áhrifa af ferðabanni Bandaríkjamanna. Vísir/Getty

Ferðabann bandarískra yfirvalda mun einnig ná til Bretlands og Írlands. Þetta kom fram á blaðamannafundi Trump sem nú stendur yfir. Þar sagði hann það einnig vera til skoðunnar að setja hömlur á samgöngur innanlands vegna kórónuveirufaraldursins.

Trump kynnti óvænt á fimmtudag fyrirætlanir um ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna sem myndi gilda í þrjátíu daga. Umrætt ferðabann tók gildi í nótt og er Ísland meðal þeirra 26 Evrópuríkja sem það nær til.

Þá var tilkynnt að bannið myndi ná til allra erlendra ríkisborgara sem hafi verið á Schengen-svæðinu síðustu 14 daga. Það fyrirkomulag hefði undanskilið ferðalanga frá Bretlandi og Írlandi. Nýtilkynnt viðbót Bretlands og Írlands mun taka gildi á miðnætti aðfaranótt þriðjudags.

Sjá einnig: Ferðabann Trump mun bíta Íslendinga

Bandarískum ríkisborgurum og fjölskyldum þeirra verður áfram hleypt til Bandaríkjanna, rétt eins og þeim sem eru þar með fasta skráða búsetu.

Þau munu þó þurfa að undirgangast skoðun við komuna til landsins og að líkindum þurfa að sæta sóttkví í tvær vikur, eins og ferðalangar frá Kína þurfa að gera í dag. Trump lýsti aðgerðunum sem hörðum en nauðsynlegum til að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd af stjórnvöldum í Evrópu og forsvarsmönnum Evrópusambandsins.

Íslendingar mega vænta umtalsverðra efnahagslegra áhrifa af ferðabanni Bandaríkjaforseta í ljósi þess að bandarískir ferðamenn hafa verið stærsti hópurinn sem farið hefur um Leifstöð frá árinu 2016.


Tengdar fréttir

Ferðabann til Bandaríkjanna komið í gildi

Íbúum 26 Evrópulanda innan Schengen-svæðisins, þar á meðal Íslands, er nú bannað að ferðast til Bandaríkjanna næstu þrjátíu dagana eftir að ferðabann Donalds Trump Bandaríkjaforseta vegna kórónuveiruheimsfaraldursins tók gildi í nótt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×