Erlent

Ferðabann til Bandaríkjanna komið í gildi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferðabannið hefur raskað verulega áætlunarflugi frá Evrópu.
Ferðabannið hefur raskað verulega áætlunarflugi frá Evrópu. Vísir/EPA

Íbúum 26 Evrópulanda innan Schengen-svæðisins, þar á meðal Íslands, er nú bannað að ferðast til Bandaríkjanna næstu þrjátíu dagana eftir að ferðabann Donalds Trump Bandaríkjaforseta vegna kórónuveiruheimsfaraldursins tók gildi í nótt.

Bannið nær einnig til allra þeirra sem hafa ferðast um eitthvert landanna 26 undanfarna fjórtán daga. Undanþegin banninu eru ríki sem standa utan Schengen-samstarfsins, þar á meðal Bretland og Írland, og bandarískir ríkisborgarar og þeir sem hafa þar varanlegt landvistarleyfi sem eru á leið heim til sín. Auk þess eru makar bandarískra borgara og þeirra sem þar eru búsettir, foreldrar þeirra og börn yngri en 21 árs undanþegin banninu.

Flugvélum sem koma frá Evrópu verður stefnt til þrettán flugvalla í Bandaríkjunum. Farþegar verða skimaðir fyrir kórónuveiru og verða þeir sem koma frá ríkjunum 26 beðnir um að fara í heimasóttkví.

Á heimasíðu Icelandair kemur fram að flugfélagið ætli að halda áfram að fljúga til Bandaríkjanna þrátt fyrir bannið. Félagið skoði ítarlega áhrif ferðabannsins á áætlunarflugið til Bandaríkjanna. Á vefsíðunni er að finna upplýsingar fyrir farþega sem eiga miða til Bandaríkjanna.

Á vef Isavia kemur fram að fyrirhuguðum flugferðum Icelandair til Orlando og Minneapolis síðdegis hafi verið aflýst. Ferðir til Washington-borgar, Chicago, New York, Boston og Seattle eru enn sagðar á áætlun.

Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt ferðabanni Bandaríkjastjórnar. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ætlar að funda með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vegna þess í Washington-borg í næstu viku.

Ferðabannið nær til eftirfarandi landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Grikklands, Ungverjalands, Íslands, Ítalíu, Lettlands, Liechtenstein, Litháens, Lúxemborgar, Möltu, Hollands, Noregs, Póllands, Portúgals, Slóvakíu, Slóveníu, Spánar, Svíþjóðar og Sviss.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×