Enski boltinn

Sextán stuðningsmenn frá hverju liði verða í beinni á öllum leikjum í enska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn AGF sjást hér á risaskjá við leikvöllinn á meðan leikmenn liðsins spila við Randers.
Stuðningsmenn AGF sjást hér á risaskjá við leikvöllinn á meðan leikmenn liðsins spila við Randers. EPA-EFE/HENNING BAGGER

Fyrstu leikirnir í ensku úrvalsdeildinni í meira en þrjá mánuði verða annað kvöld þegar mætast meðal annars Manchester City og Arsenal en fjörið byrjar á leik Aston Villa og Sheffield United.

Það verða aftur á móti engir áhorfendur leyfðir á þessum leikjum ekki frekar á hinum 90 leikjunum sem á eftir að spila á keppnistímabilinu 2019-20.

Danska félagið AGF frá Árósum fór öðruvísi leið til að lífga upp á heimaleikina sína þegar stuðningsmennirnir máttu ekki mæta á völlinn. Þeir stilltu upp sjónvörpum á nokkrum stöðum í kringum leikvöllinn og á þeim voru stuðningsmennirnir síðan í beinni í gegnum fjarfundabúnað.

Stemningin á völlunum í Englandi hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti að upplifuninni að horfa á leiki þaðan. Til að lífga upp á áhorfendalausa leiki ensku úrvalsdeildarinnar þá hafa forráðamenn hennar látið sér detta ýmsar nýjungar í hug.

Enska úrvalsdeildin mun verða með stuðningsmenn í beinni á risaskjá og þá verða sjónvarpsstöðvarnar líka með myndavélar á nýjum stöðum.

Sums staðar fá sjónvarpsáhorfendur að velja hvort þeir hlusti á leikina með eða án gerviáhorfendahljóðum. Leikmennirnir sjálfir munu að sjálfsögðu ekki heyra neitt nema bergmálið af öskrum félaganna eða stjóranna.

Sætin næst vellinum verða líka útbúin sérstaklega og það fer alveg eftir hugmyndaflugi hvers félags hvernig það verður útfært.

Ein af nýjungunum er síðan að verða með sextán stuðningsmenn í beinni á meðan leiknum stendur. Sjónvarpsstöðvarnar og sá sem stýrir vallarskjánum á hverjum velli hafa síðan möguleika á að skipta yfir á þessa stuðningsmenn til að sýna fagnaðarlæti eða eitthvað annað sniðugt.

Nokkrir leikvangar eins og til dæmis Anfield eru ekki með stóran sjónvarpsskjá og Liverpool ætlar ekki að breyta því þrátt fyrir þetta ástand. Það verður því ekki settur upp tímabundinn risaskjár á Anfield.

Aðeins 300 manns mega verða viðstödd á hverjum leik og það verða því engir boltakrakkar til að sækja boltana.

Leikmenn munu síðan fá eina mínútu í vatnspásu um miðjan hvorn hálfleik en leikirnir fara nú fram um mitt sumar og því gæti verið mun heitara en vanalega á leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Varsjáin verður áfram í notkun en nú þarf að skipta VAR-dómurunum upp í fleiri herbergi til að tryggja smitvarnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×