Innlent

Hefur orðið fyrir á­rásum vegna ó­þægi­legra mála og segir „of­beldis­menningu“ við­gangast á Al­þingi

Sylvía Hall skrifar
Halldóra Mogensen segist flokka þær persónulegu árásir sem hún hefur orðið fyrir sem andlegt ofbeldi.
Halldóra Mogensen segist flokka þær persónulegu árásir sem hún hefur orðið fyrir sem andlegt ofbeldi. Vísir/Vilhelm

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, gagnrýndi menninguna á Alþingi harðlega á þingfundi í dag. Hún veltir fyrir sér hvort öðruvísi sé komið fram við konur í valdastöðum en karla.

Þetta sagði Halldóra eftir að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir tilkynnti að hún myndi ekki sinna formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd áfram. Persóna hennar hefði sífellt verið dregin í svaðið og hún hafi verið notuð sem blóraböggull í umræðu um mál sem meirihlutanum þætti erfið.

„Ég hef þurft persónulega að líða árásir og það sem ég myndi flokka sem andlegt ofbeldi þegar ég varpa ljósi á mál sem hafa verið óþægileg fyrir meirihlutann. Það hefur verið komið fram við mig á hátt sem ég efast um að væri gert ef ég væri karlmaður,“ sagði Halldóra.

Hún sagði mikilvægt að spyrja þessara spurninga í því skyni að ná fram einhverri umræðu um þessi mál. Þá hvatti hún aðra til sjálfsskoðunar varðandi þá ofbeldismenningu sem þrifist inni á þinginu.

„Mér finnst mikilvægt að spyrja spurninganna í þeirri von um að hún hvetji til umræðu og einhvers konar sjálfsskoðunar um þá ofbeldismenningu sem þrífst á þessum vinnustað sem ég hef fundið fyrir síðan ég steig hérna inn og litar alla okkar vinnu, og að hverjum hún beinist þessi menning. Og hvernig við komum fram við hvort annað,“ sagði Halldóra.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×