Innlent

1,7 milljóna sekt fyrir al­var­leg um­ferðar­laga­brot

Sylvía Hall skrifar
Lögregla stöðvaði för mannsins í öll skiptin. Þá mældist amfetamín í blóði hans og var hann dæmdur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Lögregla stöðvaði för mannsins í öll skiptin. Þá mældist amfetamín í blóði hans og var hann dæmdur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Vísir/Vilhelm

Karlmaður var í dag dæmdur til þess að greiða 1,7 milljónir króna í sekt fyrir ítrekuð umferðarlagabrot. Greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna kemur 52 daga fangelsi í stað hennar.

Maðurinn var jafnframt sviptur ökuréttindum í fimm ár frá dómsuppkvaðningu. Hann mætti ekki við þingfestingu málsins í maí síðastliðnum.

Um fjögur brot var að ræða en maðurinn var undir áhrifum amfetamíns og annarra efna við akstur bifreiðar. Lögregla stöðvaði för mannsins í öll skiptin, þrisvar í Grafarvogi en eitt skipti í Árbæ. Brotin áttu sér stað á fimm mánaða tímabili á síðasta ári.

Maðurinn hafði gengist við því að greiða tvær milljónir í sekt fyrir brotin og vörslu fíkniefna í febrúar á þessu ári. Þar áður hafði hann gengist undir lögreglustjórasátt í október árið 2018 vegna sambærilegra brota sem fól í sér 280 þúsund króna sekt, en sú sátt var hegningarviðauki við fyrri dóm héraðsdóms Reykjaness í september 2018 þar sem maðurinn var dæmdur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Fyrrnefndur dómur var hegningarauki við þrjár lögreglustjórasáttir sem maðurinn hafði undirgengist vegna vörslubrota og aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann hefur nú tvisvar verið dæmdur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×