Innlent

Fyrstu farþegarnir skimaðir í morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fyrstu farþegar sem skimaðir voru á Keflavíkurflugvelli komu með flugi Wizz air frá London sem lenti klukkan 9:40 í morgun.
Fyrstu farþegar sem skimaðir voru á Keflavíkurflugvelli komu með flugi Wizz air frá London sem lenti klukkan 9:40 í morgun. Vísir/Frikki

Fyrstu farþegar sem skimaðir voru á Keflavíkurflugvelli lentu í dag klukkan 9:40. Um var að ræða flug ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air frá London.

Farþegar vélarinnar eru þeir fyrstu sem kost höfðu á því að velja á milli þess að láta skima sig fyrir kórónuveirunni eða sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Neiti farþegar öðrum þessara kosta verður þeim vísað úr landi.

Fréttastofa var á vettvangi þegar fyrstu skimuðu farþegarnir komu út úr komusalnum á Keflavíkurflugvelli. Hér fyrir neðan má sjá myndir af farþegum sem komu með fyrsta flugi dagsins.

Að sögn eins farþega vélarinnar voru um 70 til 80 farþegar um borð. Meirihluti þeirra voru Íslendingar.

Mesta umferðin í lengri tíma

Í dag munu alls átta vélar lenda á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða mestu umferð um völlinn í nokkuð langan tíma, eða frá því flugsamgöngur röskuðust allverulega sökum kórónuveirufaraldursins.

Til samanburðar við þær átta vélar sem koma til landsins í dag lenti aðeins ein vél á vellinum í gær, flug Icelandair frá London. Daginn áður voru þær þó fjórar, tvær frá Wizz Air og tvær frá Icelandair.

Um 60 manns koma með beinum hætti að skimun farþega í flugstöðinni. Gert er ráð fyrir að sýnataka á hvern farþega taki á bilinu tvær til tvær og hálfa mínútu. Eins er búið að reikna út að biðtími eftir skimun á ekki að geta verið meiri en 33 mínútur.

Frá skimunaraðstöðunni á Keflavíkurflugvelli.Vísir/Elísabet Inga


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×