Innlent

Brutu sótt­varnalög til að láta vita af breyttum dvalar­stað

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan og sérsveit lögreglunnar að verki við Kolaportið rétt eftir miðnætti í nótt, aðfaranótt mánudags.
Lögreglan og sérsveit lögreglunnar að verki við Kolaportið rétt eftir miðnætti í nótt, aðfaranótt mánudags. Vísir/Björn Þórisson

Fimm erlendir aðilar brutu um klukkan tvö í nótt sóttvarnalög þegar þeir mættu í tveimur leigubílum á lögreglustöð til að tilkynna um breyttan dvalarstað. Aðilarnir áttu allir að vera í sóttkví þar til síðar í mánuðinum samkvæmt dagbók lögreglu. 

Einstaklingarnir sögðust ekki hafa nennt að tilkynna um breyttan dvalarstað með símtali og töldu þessa leið einfaldari. Þeir voru í kjölfarið færðir til vistunar á sóttvarnarhóteli. Ekki kemur fram hjá lögreglu hvort þetta séu mennirnir sem lögreglan reynir nú að hafa uppi á.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í miðbænum. Þrír menn voru að berja einn og tóku þeir svo árásarþola með sér þegar þeir fóru af vettvangi í bifreið. Þeir voru stöðvaðir skömmu síðar af lögreglu, handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Árásarþolinn var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar en ekki kemur fram hver líðan hans er.

Tilkynnt var um tvö tilvik af þjófnaði, annars vegar í Kringlunni rétt eftir klukkan fimm og hins vegar í íbúð í Háaleitis- og Bústaðarhverfinu. Einnig var tilkynnt um innbrot í íbúð í Mosfellsbæ þar sem veiðibúnaði var stolið og er metinn að sé allt að hálfrar milljónar króna virði.

Umferðaróhapp varð í Garðabæ á Elliðavatnsvegi. Farþegi var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild en ekki er vitað um áverka. Þá varð umferðarslys á Bústaðavegi á áttunda tímanum í gær þar sem ekið hafði verið aftan á kyrrstæða bifreið sem beið við rautt ljós á gatnamótum. Tjónvaldur er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×