Innlent

Aflabrestur á Síldarminjasafninu

Jakob Bjarnar skrifar
Aníta safnstjóri segir safnið háð ferðamönnum með rekstrarfé og nú er alger aflabrestur.
Aníta safnstjóri segir safnið háð ferðamönnum með rekstrarfé og nú er alger aflabrestur.

Síldarminjasafnið á Siglufirði siglir nú mikinn ólgusjó vegna Covid-faraldursins og hruns í ferðaþjónustu.

Anita Elefsen safnstjóri segir að þau þar standi nú frammi fyrir því að 90 prósent þeirra sem boðað höfðu komu sína í sumar hafi afbókað.

Þetta eru mikil viðbrigði frá því sem verið hefur en Siglufjörður hefur verið rækilega inni á kortinu þegar ferðamannastraumurinn hefur verið annars vegar.

„Þetta þýðir það að við verðum fyrir miklu tekjufalli. Eins og staðan blastir við núna munar ekki minna en 30 milljónum á ársgrundvelli,“ segir Aníta. En tekjutímabilið er fyrst og fremst sumarmánuðirnir.

Erlendir gestir 85 prósent yfir sumartímann

Staðan er grafalvarleg en safnið, sem á sér merka sögu, er sjálfseignastofnun og hefur að mestu leyti treyst á gesti við rekstur. Helsta tekjulindin hafa verið erlendir ferðamenn, farþegar skemmtiferðaskipa og skiplagðir hópar. Að sögn Anítu hefur safnið verið í góðu samstarfi við ferðaskrifstofur sem hafa komið við í safninu með hópa sína.

Síldarminjasafnið er sjálfseignastofnun en horfir nú fram á að 90 prósent þeirra sem boðað höfðu komu sína hafa afbókað.

„Við höfum notið góðs af því að erlendir ferðamenn hafa viljað ferðast um landið og koma þá við hjá okkur. Við höfum treyst á þessa gesti,“ segir Aníta. Hún segir að þó safnið hafi samning við sveitarfélagið og menntamálaráðuneytið sé það ekki rekið af hvorki ríki né sveit.

„Við erum mjög háð ferðamönnum með rekstrarfé. Við áttum von á skipulögðum hópum. Þess utan er þessi lausatraffík margfalt rólegri en við erum vön.

Yfir sumartímann eru erlendir gestir að jafnaði um 85 prósent. Það lækkar aðeins sé litið til ársins í heild.

Íslendingar eru fleiri yfir vetrartímann,“ segir Aníta en þá hefur meðal annarra skólafólk komið og sótt staðinn heim.

Með allar klær úti

Aníta segir ekkert einfalt svar við því hvernig hægt er að bregðast við þessari erfiðu stöðu.

„Við reynum að vera með allar klær úti og reynum að hvetja innlenda til að koma; að þeir gleymi ekki söfnunum á ferðalaginu í sumar.“

Frá Síldarminjasafninu á Siglufirði. Safnstjórinn hvetur innlenda ferðamenn til að líta við á þessu merkilega safni.

Aníta segir jafnframt að safnið hafi sótt um það viðbótarfjármagn sem staðið hefur til boða á vegum ríkisins til að bregðast við þessum hamförum. Safnið fékk ekki úthlutun frá nýsköpunarsjóði námsmanna en nú er beðið eftir því að opnað verði fyrir umsóknir til lokunarstyrkja.

„En við erum að hugsa um að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum að gerast bakhjarlar safnsins, til dæmis með árgjaldi. Safnið á sér sérstaka sögu. Það var byggt upp af sjálfboðaliðum. Samtakamáttur fólksins hefur komið okkur vel áður. Þetta safn væri ekki hér ef ekki væri fyrir orku og krafta heimamanna sem lögðu það á sig að koma safninu upp og starfrækja.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×