Þriggja metra langur hvítháfur réðst á brimbrettamann á sextugsaldri undan ströndum Ástralíu og lést maðurinn af sárum sínum í morgun. Þetta er þriðja mannskæða hákarlsárásin við Ástralíu á þessu ári.
Árásin átti sér stað við Kingscliff í norðanverðu Nýja Suður-Wales, um 800 kílómetra norður af Sydney. Breska ríkisútvarpið BBC segir að aðrir brimbrettamenn hafi komið manninum til aðstoðar og bægt hákarlinum frá. Allt kom þó fyrir ekki og lést maðurinn af sárum sínum á ströndinni. AP-fréttastofan segir að hákarlinn hafi bitið manninn aftan í annað lærið.
Nokkrar strandir á svæðinu voru rýmdar eftir árásina og verða þær lokaðar næsta sólarhringinn.
Hvítháfar eru sagðir á ferli á þessum slóðum á þessum tíma árs. Tveir aðrir hafa látist eftir að hákarlar réðust á þá á þessu ári. Í apríl lést 23 ára gamall landvörður í Queensland þegar hákarl réðst á hann við Kóralrifið mikla. Í janúar lést 57 ára gamall kafari undan ströndum Vestur-Ástralíu.
