Innlent

Ákærð fyrir fíkniefnaframleiðslu og umhverfisspjöll í Hvalfjarðargangamálinu

Andri Eysteinsson skrifar
Fólkið var handtekið við Hvalfjarðargöng í febrúar.
Fólkið var handtekið við Hvalfjarðargöng í febrúar. Vísir/Vilhelm

Sex hafa verið ákærð fyrir framleiðslu amfetamíns og fyrir að hafa valdið mengunarhættu í Hvalfjarðargangamálinu svokallaða sem komst í fréttir með handtöku fólksins í og við Hvalfjarðargöng í lok febrúar.

Fólkið, fimm karlar og ein kona, voru handtekin á tveimur bílum við göngin snemma dags 29. febrúar á leið þeirra frá sumarbústaði í Borgarfirði þar sem þau höfðu unnið við framleiðslu amfetamíns.

Sakborningarnir, fjórir pólskir karlar og tveir íslenskir ríkisborgarar, eru grunuð um að hafa framleitt efnið alveg frá grunni en í hádegisfréttum RÚV var greint frá að slíkt mál hafi ekki ratað fyrir dóm hér á landi. Þá eru þrír af pólsku mönnunum ákærðir fyrir brot gegn lögum um umhverfisvernd þar sem þeir eru grunaðir um að hafa sturtað skaðlegum efnum úr framleiðslunni í náttúruna í kringum bústaðinn og valdið hættu á umhverfistjóni.

Í frétt RÚV segir að lögregla telji fullvíst að fólkið hafi framleitt amfetamínið frá grunni hér á landi. Gerð er krafa um upptöku á símum, tölvu, rafbyssu, BMW-bifreið og ýmsum tólum og tækjum sem notuð voru við framleiðslu á amfetamíni. Þar á meðal sjö tunnur 25 til 60 lítrar að stærð. Hanskar, heilgallar, mælikönnur krukkur, ísóprópanól, vítissódi og saltsýra svo eitthvað sé nefnt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×