Innlent

Lilja segir flokksaðild ekki hafa skipt máli við skipan ráðuneytisstjóra

Heimir Már Pétursson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir
Stöð 2/Einar

Menntamálaráðherra segir það ekki hafa skipt máli að Páll Magnússon er samflokksmaður hennar þegar hún skipaði hann í embætti ráðuneytisstjóra. Hún taki úrskurð úrskurðarnefndar jafnréttismála alvarlega og málið sé til skoðunar í ráðuneytinu

Úrskurðarnefnd jafnréttismála kvað upp þann úrskurð í vikunni að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hafi brotið gegn jafnréttislögum þegar hún skipaði Pál Magnússon flokksbróður hennar í Framsóknarflokknum í stöðu ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu í fyrra. Hafdís Helga Ólafsdóttir skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu var ein umsækjenda um stöðuna en hæfnisnefnd setti hana ekki í hóp fjögurra hæfustu.

Hún kærði engu að síður skipunina til úrskurðarnefndar jafnréttismála sem kvað upp þann úrskurð í vikunni að menntamálaráðherra hefði brotið jafnréttislög á Hafdísi Helgu.

„Við erum að fara núna yfir þennan úrskurð. Annars vegar erum við með hæfnisnefnd sem kemst að allt annarri niðurstöðu og hins vegar úrskurðarnefnd jafnréttismála og nú er ég að meta það með lögmönnum hver verða næstu skref,“ segir Lilja.

Hún hafi gert sjálfstæða athugun á umsækjendum og ekki getað séð að það væru veigamiklar ástæður til að fara ekki að niðurstöðu hæfnisnefndarinnar. Hún fagni því að málið fái efnislega skoðun eins og hjá umboðsmanni Alþingis.

„Það er nefnilega þannig að öll þau verk sem ég hef komið að á síðustu árum hafa alltaf verið unnin af algerri fagmennsku. Ég hef alltaf fengið færasta og öflugasta fólkið til liðs við mig,“ segir Lilja.

Hún nefnir sem dæmi undirbúning og framlagningu frumvarps um menntasjóð sem feli í sér kerfisbreytingu sem ekki hafi tekist að ná fram í um þrjátíu ár en sem mun ná fram að ganga á yfirstandandi vorþingi.

Lítur það þannig út að þarna hafi skipt máli að vera framsóknarmaður?

„Alls ekki. Eins og ég segi það er alltaf hæfasta fólkið sem er valið hjá mér og verkin sýna það líka.“

En er það ekki álitshnekkir að fá svona úrskurð á sig?

„Við ætlum að fara yfir þetta og kærunefnd jafnréttismála gegnir auðvitað veigamiklu hlutverki. Þess vegna tek ég þessu að sjálfsögðu mjög alvarlega,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×