Innlent

Búast við allt að þremur ungmennum á viku á nýja afeitrunardeild

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ný afeitrunardeild er í sama húsi og geðdeildin
Ný afeitrunardeild er í sama húsi og geðdeildin vísir/vilhelm

Búist er við allt að þremur ungmennum á viku á nýja afeitrunardeild fyrir ólögráða ungmenni sem opnuð var á Landspítalanum í vikunni. Forstöðumaður geðþjónustu spítalans segir mikla þörf á að efla þjónustu við ungmenni með alvarlegan fíknivanda.

Deildin heyrir undir fíknigeðdeild sjúkrahússins og verður áhersla lögð á fjölskyldumiðaða þjónustu.

Þar eru tvö meðferðarrými þar sem ungmenni með alvarlegan vímuefnavanda koma til innlagnar en eftir það taka við önnur úrræði, svo sem Stuðlar.

Nanna Breim, forstöðumaður geðþjónustu á Landspítala segir tilkomu deildarinnar mikið framfaraskref í þjónustu við börnin. „Enda hefur verið mikil þörf á að efla þjónustu við unga einstaklinga í alvarlegri fíkniefnaneyslu,“ segir Nanna. 

Hingað til hafi börnin verið víðs vegar og hvergi í kerfinu. „Vissulega hafa börn verið á Stuðlum, bráðamóttöku og barnageðdeild en það hefur ekki verið svona markvisst utanumhald,“ segir Nanna. 

Þverfaglegt teymi mun sinna börnunum á meðan á dvöl stendur í samvinnu við BUGL. Einnig verður náið samstarf við Barnaverndarstofu og bráðamóttökuna.

„Það var gert ráð fyrir því í forvinnunni að þetta gætu verið eitt til þrjú börn á viku og það er gert ráð fyrir því að þau séu hérna í einn til þrjá sólarhringa,“ segir Nanna. 

Gert er ráð fyrir að flestir séu á aldrinum 15 til 17 ára.  „Það gætu komið einhvern yngri og við erum alveg við því búin,“ segir Nanna.  

Vissulega sé stórt inngrip í líf ungmenna að setja þau á lokaða deild.  „Þess vegna höfum við virkilega lagt okkur fram við að gera deildina huggulega og heimilislega en jafnframt örugga svo það sé ekki hægt að skaða sig hér,“ segir Nanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.