Innlent

Telja brunann í Hrísey af mannavöldum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mikill eldur logaði í frystihúsinu í Hrísey á fimmtudag. Lögregla telur að bruninn hafi verið af mannavöldum, en óljóst er hvort um slys eða íkveikju var að ræða.
Mikill eldur logaði í frystihúsinu í Hrísey á fimmtudag. Lögregla telur að bruninn hafi verið af mannavöldum, en óljóst er hvort um slys eða íkveikju var að ræða. Steinar Ólafsson

Lögreglan á Akureyri hefur nánast útilokað að bruninn sem varð í frystihúsi Hríseyjar Seafood í Hrísey á fimmtudagsmorgun hafi komið til vegna rafmagnsbilunar. Nú er unnið með tvær kenningar. Bruninn hafi verið af mannavöldum, en óljóst er hvort um slys eða íkveikju hafi verið að ræða. Lögregla telur slys þó líklegra eins og er.

Þetta segir Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri í samtali við Vísi.

Hann segir að síðastliðinn föstudag, daginn eftir brunann, hafi rannsakendur frá tæknideild lögreglunnar farið ásamt sérfræðingi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun farið út í eyjuna og rannsakað vettvang brunans.

„Í fyrstu atrennu útiloka þeir rafmagnið, og segja að þetta sé þar af leiðandi bruni af mannavöldum. En það er ekki hægt að segja til hvort um sé að ræða íkveikju eða slys,“ segir Bergur. Fyrstu upplýsingar hafi gefið til kynna að rafmagnsbilun í rými þar sem lyftarar voru í hleðslu hafi mögulega valdið eldinum. Svo virðist þó ekki vera.

Frystihúsið brann til kaldra kola, og lítið sem ekkert var eftir.Vísir/Tryggvi

Telja slys líklegra eins og sakir standa

„Nú er verið að vinna úr gögnum sem þeir tóku. Við höfum verið með skýrslutökur af vitnum og skoðað myndefni og annað. Við höllumst meira að því að þetta sé slys,“ segir Bergur. Hann segir ekkert hægt að fullyrða um hvað gögnin kunni, eða kunni ekki, að leiða í ljós.

„Líkleg skýring væri slys. Það var verið að sjóða í rými þar sem við sjáum að eldur kemur upp, þannig að það er eitthvað sem ekki er hægt að útiloka. Að neisti hafi flogið eitthvað.“

Bergur segir hins vegar að fyrirliggjandi gögn sanni ekki með beinum hætti að sú sé raunin.

„Á meðan við höfum ekki skýrslu frá þeim er þetta bara opið og þessar tvær kenningar eftir,“ segir hann.

Bergur bendir þó á að brunar séu oft illrannsakanlegir, með tilliti til eldsupptaka.

„Þetta er bara það erfiðasta sem þú getur unnið með til að komast að einhverri niðurstöðu. En þetta eru þessar vinnutilgátur sem við erum að elta í dag.“


Tengdar fréttir

Vettvangsrannsókn lokið í Hrísey

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur lokið rannsókn sinni á vettvangi stórbrunans í fiskvinnslu Hrísey Seafood í Hrísey í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×