Innlent

Netverjar kvarta undan akstri á göngugötum: „Hún hló að mér og sagði að það væri sko allt opið“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs hefur nú verið breytt í varanlegar göngugötur.
Hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs hefur nú verið breytt í varanlegar göngugötur. Vísir/Vilhelm

Illa hefur gengið síðustu daga að tryggja að göngugötur í miðborginni haldist göngugötur. Í síðustu viku voru sett upp sérstök skilti til að minna vegfarendur á að hluti Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs sé nú orðinn að varanlegum göngugötum.

Netverjar hafa margir vakið athygli á því að ökumenn hafi ekki virt þessar reglur og hafi jafnvel reynt að keyra á gangandi vegfarendur á göngugötunum. Gangandi vegfarendur fari ekki út á götuna því það sé svo mikil bílaumferð á göngugötunni.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segir í samtali við fréttastofuna að hún hafi orðið vör við hve erfiðlega hafi gengið að halda götunum sem göngugötum. „Það sem við höfum séð er að ökumenn eru ekki að virða umferðarmerkingar og umferðarlögin. Það er í rauninni alveg ótrúlegt að í okkar samfélagi sé staðan þannig að fólk virði ekki lögin og að fólk keyri á götu bara af því það er gata.“

Umferðarlögum var breytt nú um áramótin en í þeim felst að ökumenn sem eru með „p-merkta“ bíla geti keyrt á þessum göngugötum. Á Íslandi eru um átta þúsund bílar með þannig merkingu og segir Sigurborg mjög erfitt að framfylgja þessum umferðarlögum þar sem göturnar eru enn opnar og auðvelt fyrir ökumenn að keyra eftir götunum. „Það sem við getum gert er að skilta og gefa til kynna að ökumaður eigi ekki að keyra þarna inn.“

Þá segir hún líklegt að ráðist verði í úrbætur á göngugötunum, þangað verði settir blómapottar og bekkir til að gefa til kynna að ekki eigi að aka á götunum. „Ef það dugir ekki þá þarf að fara í frekari framkvæmdir,“ segir Sigurborg.

„Rétt í þessu var ég að labba niður Skólavörðustíginn og það kom bíll, keyrði svona hálfum meter á eftir mér. Þegar ég hélt áfram að ganga Laugaveginn kallaði hún á mig að ég væri að labba á götunni. Ég sagði henni vingjarnlega að þetta væri göngugata,“ skrifar Nanna Hermannsdóttir á Twitter.

„Hún hló að mér og sagði að það væri sko „allt opið.“ Ég útskýrði fyrir henni af hverju það væri ekki lokað en það væru skilti út um allt. Hún hló aftur að mér og sagði að hún mætti keyra þarna því það væri allt opið,“ bætir Nanna við.

Það má með sanni segja að Twitter logi þessa stundina með reynslusögum fólks sem lesa má hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.