Innlent

Þrjár sektir vegna brota á kórónuveirureglum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fámennt föstudagskvöld í miðborg Reykjavíkur í samkomubanni.
Fámennt föstudagskvöld í miðborg Reykjavíkur í samkomubanni. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Þrír einstaklingar hafa verið sektaðir vegna brota á sóttvarnalögum og reglum settum samkvæmt þeim vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara er annars vegar um að ræða brot á sóttkví og hins vegar brot á fjöldatakmörkunum.

Einstaklingarnir tveir sem brutu reglur um sóttkví voru hvor um sig sektaðir um 50 þúsund krónur. Sá sem braut reglur um fjöldatakmarkanir fékk hins vegar 250 þúsund króna sekt.

Sá er sagður vera forsvarsmaður veitingastaðar sem hýsti fleiri en 20 manns, sem var einmitt hámarksstærð samkoma frá 24. mars fram til 4. maí. Þá var samkomubannið rýmkað þannig að 50 máttu aftur koma saman. Þau sem sóttu veitingastaðinn voru hins vegar ekki sektuð.

Í svari ríkissaksóknara við fyrirspurn fréttastofu kemur ekki fram um hvaða veitingastað ræðir, hvenær forsvarsmaður hans var sektaður eða hversu mörg voru samankomin á staðnum.

Í fyrirmælum ríkissaksóknara sem voru gefin út í lok mars kom fram að þau sem trössuðu sóttkví gætu átt von á að allt 250 þúsund króna sekt. Bryti einstaklingur reglur um einangrun gæti sektin hins vegar hljóða upp á 500 þúsund, rétt eins og í tilfelli þeirra sem stæðu fyrir samkomu þar sem fjöldi fór yfir leyfilegt hámark.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×