Erlent

Yfir hundrað þúsund látin í Bandaríkjunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hvergi í heiminum hafa fleiri smitast af kórónuveirunni svo vitað sé eða látið lífið vegna hennar en í Bandaríkjunum.
Hvergi í heiminum hafa fleiri smitast af kórónuveirunni svo vitað sé eða látið lífið vegna hennar en í Bandaríkjunum. Getty/Spencer Platt

Rúmlega 102 þúsund manns hafa látist af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum. Þetta sýna tölur frá Johns Hopkins-háskóla í Maryland-ríki.

Bandaríkin eru það land þar sem flest tilfelli kórónuveirunnar sem valdið getur Covid-19 sjúkdómnum hafa greinst, en rúmlega 1,7 milljónir tilfella hafa verið staðfest þar í landi.

Alls hafa tæplega 5,8 milljónir tilfella greinst í heiminum og hefur sjúkdómurinn dregið rúmlega 356 þúsund manns til dauða á heimsvísu.

Fyrsta tilfelli veirunnar í Bandaríkjunum greindist 21. janúar síðastliðinn. Þar var um að ræða mann sem hafði nýverið ferðast til Kína, en veiran er talin hafa átt upptök sín í kínversku borginni Wuhan.

Í febrúar sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að búið væri að ná stjórn á veirunni innan Bandaríkjanna og að í apríl myndi hún mögulega „hverfa, eins og fyrir kraftaverk.“

Þá hefur hann spáð því að dauðsföll í Bandaríkjunum af völdum veirunnar yrðu á bilinu 50 til 60 þúsund. Síðar sagði hann að þau yrðu „talsvert undir 100 þúsund.“

Eins sagði forsetinn fyrr í þessum mánuði að það væri heiður fyrir Bandaríkin að eiga flest greind smit allra ríkja í heiminum. Það þótti honum benda til þess að Bandaríkjamenn stæðu sig vel í prófunum fyrir kórónuveirunni.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á efnahagslífið í Bandaríkjunum og hafa tugir milljóna manna misst vinnuna; í byrjun þessa mánaðar höfðu yfir 30 milljónir Bandaríkjamanna sótt um atvinnuleysisbætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×