Fótbolti

Gamli Man. United maðurinn aðstoðar líklega gamla Liverpool manninn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Kuyt fagnar marki með Liverpool á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.
Dirk Kuyt fagnar marki með Liverpool á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Alex Livesey

Dirk Kuyt er sagður í hollenskum miðlum vera að taka við liði Feyenoord í sumar og yrði þetta hans fyrsta starf sem knattspyrnustjóri. Hann myndi þá fá sér til aðstoðar Svíann Henrik Larsson. Báðir eru þeir fyrrum leikmenn Feyenoord.

Hollenska blaðið De Telegraaf hefur heimildir fyrir því að Feyenoord vilji fá nýjan mann í brúna í staðinn fyrir Dirk Advocaat. Advocaat er með samning út næsta tímabil en forráðamenn Feyenoord leita leiða til að færa Advocaat til í annað starf innan félagsins.

Kuyt spilaði með Feyenoord í tveimur törnum, fyrst 2003 til 2006 og svo frá 2015 til 2017. Liverpool keypti hann frá Feyenoord í ágúst 2006. Henrik Larsson spilaði með Feyenoord frá 1993 til 1997.

Henrik Larsson spilaði líka með Manchester United árið 2007 en er þekktari fyrir tíma sinn hjá Celtic og Barcelona.

Dirk Kuyt er 39 ára gamall og lagði skóna á hilluna árið 2017 eftir að hafa snúið aftur til Feyenoord. Kuyt spilaði reyndar nokkra leiki með Quick Boys í lok 2017-18 tímabilsins en þar byrjaði hann einmitt feril sinn í boltanum. Kuyt var á þeim tíma aðstoðarþjálfari Quick Boys og félagið vantaði framherja í lok móts.

Henrik Larsson hefur mun meiri reynslu af því að stýra fótboltaliðum en Dirk Kuyt. Larsson hefur þjálfað lið í Svíþjóð, bæði sem þjálfari og sem aðstoðarþjálfari. Hann var síðast hjá Helsingborgs IF.

Dirk Kuyt hefur unnið fyrir Feyenoord undanfarið og væri í raun að fá stöðuhækkun. Hann hefur verið þjálfari nítján ára liðs félagsins.

Það má búast við því að sóknarleikur Feyenoord ætti að vera í fínu lagi undir stjórn þeirra Dirk Kuyt og Henrik Larsson sem voru báðir mjög öflugir sóknarmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×