Erlent

Á­sökunum um „sið­spillt“ líferni rignir yfir fyrir­sætu sem lést í flug­slysi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Zara Abid var farsæl fyrirsæta, sem pakistanskur tískuheimur minnist með hlýju.
Zara Abid var farsæl fyrirsæta, sem pakistanskur tískuheimur minnist með hlýju. Instagram

Pakistönsk fyrirsæta, sem talin er hafa farist í flugslysi í Pakistan í síðustu viku, sætir nú eftir andlátið miklu aðkasti á samfélagsmiðlum. Reikningum hennar á hinum ýmsum miðlum hefur verið lokað eftir að nettröll úr íhaldssömu samfélagi pakistanskra múslima létu rigna yfir hana ásökunum um að hafa lifað „siðspilltu“ lífi.

Fyrirsætan hét Zara Abid og var 28 ára. Samkvæmt farþegaskrá og frásögnum vina hennar var hún um borð í farþegaþotu flugfélagsins Pakistan International Airlines sem hrapaði í pakistönsku borginni Karachi á föstudag. Alls voru 99 um borð og fórust allir, utan tvo menn sem verið hafa til frásagnar um slysið.

Fyrstu fregnir hermdu að Abid hefði komist lífs af úr slysinu. Bróðir hennar sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem hann þrábað netverja að hætta að dreifa „falsfréttum“ af slysinu.

Abid átti að baki afar farsælan feril sem fyrirsæta í heimalandi sínu og starfaði fyrir nokkur stærstu fatamerki Pakistan á meðan hún lifði. Þá var hún valin „besta kvenfyrirsætan“ á hinni pakistönsku Hum Style-verðlaunahátíð í janúar síðastliðnum.

Þegar fréttir tóku að berast af því að Abid hefði verið um borð í flugvélinni sem hrapaði á föstudag birtu íhaldssamir öfgamenn athugasemdir í hundruðatali við færslur hennar á samfélagsmiðlum. 

Þeir drógu trúrækni Abid, sem var íslamstrúar, í efa og sökuðu hana um að hafa lifað „siðspilltu“ lífi. Athugasemdirnar voru einkum skrifaðar við myndir af Abid klæddri í fatnað sem telst efnislítill í Pakistan. Umrædd nettröll endurbirtu jafnframt slíkar myndir á samfélagsmiðlum og fordæmdu „siðlausa“ hegðun Abid.

Konur eiga víða erfitt uppdráttar í Pakistan, í það minnsta þeim hluta samfélagsins sem fylgir íhaldssömustu gildum íslamstrúar. Þar er lögð áhersla á að konur hylji sig og hafi sig lítið frammi.

Abid lifði þó og hrærðist í frjálslegra samfélagi fyrirsæta, hönnuða og leikara, sem mörg hver minntust hennar með hlýju og söknuði á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir

97 létust í flugslysinu

Í það minnsta 97 létust þegar pakistönsk farþegaþota brotlenti í íbúðarhverfi í borginni Karachi í gær. Flugriti vélarinnar er fundinn og munu flugmálayfirvöld rannsaka slysið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×