Innlent

„Við erum ekki að reyna að hafa lokað“

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðstöðunni við ylströndina í Nauthólsvík. 
Frá aðstöðunni við ylströndina í Nauthólsvík.  Vísir/Vilhelm

Ylströndin í Nauthólsvík er enn lokuð þó svo að takmörkunum á baðstöðum hafi verið aflétt að hluta. Á meðan sundlaugar voru opnaðar í síðustu viku var ekki hægt að fara í sturtuklefa ylstrandarinnar né að demba sér í pottinn eftir sjósund. Þótti það einkennilegt, sér í lagi í ljósi þess að samskonar pottur á Akranesi, sem kallast Guðlaug, var opinn.

Frá borginni fengust þau svör að um tilmæli frá sóttvarnalækni væri að ræða og að aðstaðan við ströndina yrði líkast til opnuð á mánudeginum, sem rann upp í dag en ekkert varð af opnuninni. Svörin frá borginni voru á þá leið að nándin væri of mikil í sturtuklefunum og enginn klór í pottinum. Sem aftur, þótti einkennilegt í ljósi fyrrgreindra ástæðna.

Óttar Hrafnkelsson, deildarstjóri ylstrandarinnar í Nauthólsvík, segir ástæðuna fyrir lokun baðstaðarins einfalda og ekki varða tilmæli sóttvarnalæknis. Málið snúist um það að hann hafi ekki starfsfólk til að standa vaktina. Á ylströndinni sé starfsfólkið ekki fastráðið heldur ráðið tímabundið til að sinna eftirliti og viðhaldi.

Í mars var ylströndinni lokað vegna tilmæla sóttvarnalæknis og ekki fyrirséð hvenær hægt yrði að leyfa gestum hennar að nýta sér sturtuklefana og pottinn.

Þegar sóttvarnalæknir tilkynnti 4. maí að hann hefði mælst til þess við heilbrigðisráðherra að sundlaugar mættu opna 18. maí, reyndist of skammur tími til að manna stöður í Nauthólsvíkinni.

Aðstandendur hennar unnu út frá því að hægt yrði í fyrsta lagi að opna ströndina í kringum 15. júní, því hafi verið gerðir samningar við starfsfólk um að hefja störf í júní.

Óttar segir að stefnt sé að opnun aðstöðunnar í Nauthólsvík fyrir helgi, verið sé að undirbúa starfsfólk til að taka þar til starfa, meðal annars þarf það að undirgangast skyndihjálparnámskeið.

„Við erum ekki að reyna að hafa lokað,“ segir Óttar í samtali við Vísi. Þegar aðstaðan verður opnuð, vonandi fyrir helgina, þá taki sumaropnun gildi, sem þýðir að opið verður alla daga frá tíu á morgnanna til sjö á kvöldin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×