Innlent

Örtröð í verslunum: „Það er til nóg af vöru í landinu“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr verslun Bónuss í Skeifunni um tólfleytið.
Úr verslun Bónuss í Skeifunni um tólfleytið. Vísir/EinarÁ

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að oft sé sagt að almenn skynsemi sé ekki mjög almenn. Það eigi ekki við um Íslendinga. Íslendingar séu almennt með mjög góða skynsemi.

Með nýju samkomubanni er treyst á að almenningur taki tilmælum varðandi samkomur og fjarlægðir milli fólks. Til dæmis í matvöruverslunum.

Frá blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum í morgun.Vísir/Vilhelm

„Lögreglan er auðvitað alltaf viðbúin en við treystum á almenna skynsemi. Það er oft sagt að almenn skynsemi sé ekki mjög almenn en það á ekki við um Íslendinga. Íslendingar eru almennt mjög skynsamir,“ sagði Víðir í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Fregnir hafa borist af örtröð í matvöruverslunum í gær og það sem af er degi. Á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum var tilkynnt um samkomubann til fjögurra vikna. Með þeim eru samkomur fleiri en hundrað bannaðar með lögum.

Viðtalið við þau Víði, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni má sjá að neðan.

Þá eru fjarlægðartakmörk í gildi hvað varðar samkomur þar sem færri en 100 koma saman.

„Auðvitað höfum við séð fréttir um að það sé að myndast örtröð í búðum. Við höfum fréttir af því núna að það sé mikið að gera í verslunum,“ segir Víðir.

Þessi mynd var tekin í Bónus Ögurhvarfi rétt fyrir klukkan eitt.Vísir/Sindri

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sagði á Borgarafundi Stöðvar 2 í gærkvöldi að nóg af mat væri til í landinu næstu vikurnar. Fólk þyrfti alls ekki að örvænta. Undir þetta tekur Víðir.

„Það er til nóg af vöru í landinu. Það er til nóg af mat. Við þurfum ekkert að hafa miklar áhyggjur. Við öndum með nefinu, förum saman í gegnum þetta. Þetta verður nokkrar vikur sem verða svona strembnar. En sumarið kemur og þá verður allt bjartara,“ segir Víðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×