Erlent

Ætla sér að prófa nýtt bóluefni gegn kórónuveirunni

Þórgnýr Einar Albertsson og Andri Eysteinsson skrifa
Unnið er að þróun bóluefnis í Jenner-stofnuninni í Oxford háskóla.
Unnið er að þróun bóluefnis í Jenner-stofnuninni í Oxford háskóla. Getty/Visionhaus

Rannsakendur við Oxford-háskóla á Bretlandi ætla sér að prufa nýtt bóluefni gegn kórónuveirunni á tíu þúsund manns til þess að komast að því hvort efnið virki. Nú þegar hafa þúsund sjálfboðaliðar fengið sprautu.

Andrew Pollard er yfir rannsókninni og segir að svo stór tilraun sé nauðsynleg til þess að komast að því hvort bóluefnið virki.

„Mjög virkt bóluefni myndi augljóslega verja fólk fyrir veikinni og það ætti að koma vel fram í viðmiðunarhópnum. Þegar að því kemur getum við skoðað niðurstöðurnar,“ segir Andrew Pollard, rannsakandi hjá Oxford háskóla.

Hann segir þó að vegna þess að smittíðni hefur lækkað á Bretlandi gæti það tekið lengri tíma að fá niðurstöður. Það skipti þó ekki öllu máli.

„Ég held að það sé alveg ljóst að þessi veira er ekki á förum og við gerum ráð fyrir að með tímanum muni mikill fjöldi fólks í öllum löndum smitast. Svo þetta er mun frekar spurning um það hversu langan tíma það tekur að fá niðurstöðu frekar en hvort við fáum niðurstöðu eða ekki,“ segir Pollard.

Andrew Pollard fer fyrir rannsókninni.

Lyfjaframleiðandinn AstraZeneca hefur þegar sagst ætla að kaupa 400 milljónir skammta af bóluefninu frá Oxford. Bretarnir eru þó ekki þeir einu sem þróa nú bóluefni en tilraunir standa til dæmis yfir eða eru í undirbúningi í Kína, Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.