Fótbolti

Valdi Scho­les og Ron­aldo bestu sam­herjana en Za­netti erfiðasta mót­herjann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Mynd/Nordic Photos/Getty

Ryan Giggs segir að þeir Cristiano Ronaldo og Paul Scholes séu þeir bestu sem hann spilaði með á ferlinum en Giggs vann hvern titilinn á fætur öðrum og spilaði með mörgum frábærum knattspyrnumönnum í gegnum tíðina.

Wayne Rooney, Ruud van Nistelrooy og Eric Cantona eru á meðal þeirra leikmanna sem núverandi stjóri landsliðs Wales spilaði með en fyrsti sem hann nefndi þegar hann talaði um besta samherjann var Ronaldo.

„Besti leikmaður sem ég hef spilað með var Cristiano Ronaldo. Augljóslega var hann ekki lengi hjá United en hann var frábær þar og hélt svo áfram að gera enn betur á öðrum stöðum,“ sagði Giggs í samtali við MUTV Group Chat. Ronaldo skoraði 118 mörk í 292 leikjum fyrir þá rauðklæddu.

„Scholes var einnig sá besti. Þú komst ekki nálægt honum á æfingum. Heilinn hans var á undan öllum öðrum, mikil gæði í sendingum og svo var hann andstyggilegur. Hann var frábær á æfingum.“

Eftir að hafa valið þá tvo leikmenn sem voru bestu samherjarnir var komið að þeim mótherja sem var erfiðast að spila gegn. Það var Javier Zanetti.

„Hann gat hlaupið allan daginn, var einnig miðjumaður svo hann var öruggur á boltanum. Hann gat varist og hann var erfiður. Hann braut á mér nefið í átta liða úrslitunum í Meistaradeildinni líka svo hann hefur allt sem varnarmaður þarf að hafa. Hann var sá besti sem ég spilaði gegn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×