Innlent

Sóttvarnalæknir segir ekki rétt að ekkert sé gert hér vegna kórónuveirunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundinum í dag.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag að hér á landi væri búið að gera gríðarlega mikið til þess að hefta útbreiðslu veirunnar sem veldur sjúkdómnum Covid-19.

Hann sagði umræðu um að hér hafi ekkert verið gert ekki sanngjarna gagnvart öllum þeim sem hafi unnið að verkefninu myrkranna á milli, en í þessu samhengi má benda á að rúmlega 3000 manns hafa nú ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem þess er krafist að stjórnvöld grípi til harðari aðgerða.

„Það hefur borið á því í fréttum kannski að mönnum finnst eins og ekkert sé verið að gera hér og það sé miklu meira verið að gera, til dæmis á hinum Norðurlöndunum. Ég vil neita því mjög staðfastlega. Það er búið að gera hér gríðarlega mikið og við erum búin að gera meira í því að rekja smit, hafa uppi á einstaklingum, setja einstaklinga í sóttkví, heldur en hin Norðurlöndin og það er bara ekki sanngjarnt finnst mér fyrir allt þetta góða fólk sem hefur unnið hér myrkranna á milli frá morgni til kvölds,“ sagði Þórólfur á fundinum.

Þá hefði fjöldinn allur af aðilum verið kallaður inn vegna útbreiðslu veirunnar.

„Þannig að ég vil bara að það komi skýrt fram að fólk er búið að inna hér af hendi alveg gríðarlega miklu vinnu í að hindra útbreiðslu þessarar veiru hér innanlands.“

Fram kom á upplýsingafundinum að nú hafi 109 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi.

Langflestir þeirra sem hafa greinst með veiruna hafa verið að koma frá skíðasvæðum í Ölpunum en þá er auk þess um að ræða einstaklinga sem hafa verið að koma frá Bandaríkjunum. Þá eru innlend smit um 24 talsins. Um 900 einstaklingar eru í sóttkví og tæplega 1000 sýni hafa verið tekin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×