Fótbolti

Bayern nýtti sér ekki kaupákvæði í lánssamningi Coutinho

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Coutinho í leik með Bayern.
Coutinho í leik með Bayern. Vísir/Getty

Óvíst er hvað framtíðin ber í skauti sér hjá brasilíska miðjumanninum Philippe Coutinho en þýska stórveldið Bayern Munchen ákvað að nýta sér ekki kaupákvæði í lánssamningi kappans.

Coutinho er lánsmaður hjá Bayern frá Barcelona en í lánssamningi milli félaganna var kveðið á um að Bayern gæti keypt Coutinho fyrir 120 milljónir evra fyrir ákveðna dagsetningu.

Ákvæðið er nú úr gildi að sögn Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarmanns hjá Bæjurum.

„Við höfum ákveðið að nýta okkur ekki þetta ákvæði. Við þurfum að skoða hvaða hóp við höfum fyrir næsta tímabil og þá getum við séð hvort við viljum halda honum eða ekki,“ er haft eftir Rummenigge í Der Spiegel.

Coutinho var ekki í leikmannahópi Bayern þegar liðið lagði Frankfurt að velli í þýsku Bundesligunni í gær en hann hefur skorað átta mörk á yfirstandandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×