Erlent

22 ára glímustjarna látin

Sylvía Hall skrifar
Hana Kimura var fædd árið 1997.
Hana Kimura var fædd árið 1997. Vísir/Getty

Hin japanska Hana Kimura er látin aðeins 22 ára að aldri. Kimura var upprennandi glímustjarna og kom fram í japönsku raunveruleikaþáttunum Terrace House á Netflix.

Dánarorsök hefur ekki verið gefin út en skömmu fyrir andlát sitt hafði Kimura birt færslur á samfélagsmiðlum sem gáfu í skyn að hún hefði orðið fyrir neteinelti að því er fram kemur á vef BBC. Við síðustu mynd sína sem hún birti á Instagram á föstudag skrifaði hún einfaldlega „bless“.

Þá birti hún einnig færslur á Twitter-síðu sinni á föstudag þar sem mátti sjá myndir af sjálfskaða og skilaboð þar sem hún sagðist ekki vilja vera manneskja lengur.

„Það var líf þar sem ég vildi vera elskuð. Takk allir, ég elska ykkur. Bless.“

Kimura hafði unnið Fighting Spirit verðlaunin árið 2019 og tók líkt og áður sagði þátt í raunveruleikaþáttunum Terrace House, þar til tökum á þáttunum var frestað vegna kórónuveirunnar. Þættirnir fylgja eftir þremur konum og þremur körlum á meðan þau búa saman í einu húsi.

Glímublaðamaðurinn Adam Pacitti minntist Kimura á Twitter-síðu sinni og sagði andlát hennar vera harmleik. Hann biðlaði til fólks að sýna náungakærleik og sagði þetta vera erfiða áminningu um það að skilaboð á samfélagsmiðlum geti haft alvarleg áhrif á geðheilsu annarra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×