Fótbolti

Stórstjörnur PSG liðsins uppteknir við að senda þeim norska skilaboð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar fagnar sigri út á vellinum í gærkvöldi.
Neymar fagnar sigri út á vellinum í gærkvöldi. Getty/UEFA

Erling Braut Håland fór augljóslega mjög í taugarnar á stórstjörnum franska liðsins Paris Saint Germain ef marka má fagnaðarlæti þeirra í gærkvöldi.

Paris Saint Germain er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir að liðið sló Borussia Dortmund út í gærkvöldi. Leikmenn franska liðsins voru uppteknir við að senda norska framherjanum Erling Braut Håland skilaboð.

Norðmaðurinn Erling Braut Håland skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri Dortmund í fyrri leiknum í Þýskalandi. Håland fagnar oft mörkunum sínum með því að setjast á rassinn og þykjast vera að hugleiða.

Það var greinilegt að sá norski fór eitthvað í taugarnar á frönsku stórstjörnunum því voru mjög uppteknir af því að senda honum skilaboð, fyrst fagnaði Neymar eins og hann og þá þóttust þeir allir fagna eins og Håland í klefanum eftir leik eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það var einnig augljóst að leikmenn Paris Saint Germain liðsins mættu hungraðir og tilbúnir í þennan leik. Þeir ætluðu sér að komast loksins í gegnum sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar og það tókst.

Parísarliðið vann 2-0 sigur í seinni leiknum á Parc des Princes í gær þar sem Neymar og bakvörðurinn Bernat skoruðu mörkin í fyrri hálfleiknum.

PSG-liðið var búið að tapa í sextán liða úrslitunum þrjú undanfarin tímabil en liðið komst síðast í átta liða úrslitin vorið 2016.

Mögnuðu Meistaradeildartímabili hjá Erling Braut Håland er nú lokið en hann skoraði 10 mörk í átta leikjum á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni, fyrst fyrir Red Bull Salzburg og svo fyrir Borussia Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×