Innlent

Ósátt við að Strandaveðrið sé sýnt á Steingrímsfjarðarheiði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Hólmavík. 
Frá Hólmavík.  Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Það er mjög mikil óánægja með að Steingrímsfjarðarheiði skuli vera notuð sem spásvæði fyrir Strandir því það gefur kolranga mynd af veðrinu. Það getur munað alveg upp í 10 gráðum á Hólmavík og Steingrímsfjarðarheiði í sumum tilfellum,“ segir Hafdís Gunnarsdóttir, íbúi á Hólmavík, sem gagnrýnir framsetningu Veðurstofu Íslands á spákortum.

„Núna þegar allir vilja fá íslenska ferðamenn til sín þá skiptir veðrið mjög miklu máli og þá skoðar fólk veðurspána hjá Veðurstofunni og skoðar hvar spáir besta veðrinu,“ segir Hafdís.

Hún tekur sem dæmi aðalspákortið eins og það birtist á vef Veðurstofunnar í morgun.

Spákort Veðurstofunnar í morgun sýndi 3 stig á Ströndum. Kort/Veðurstofa Íslands.

„Núna er 13 stiga hiti á Hólmavík og heiðskírt, en í veðurspánni fyrir Steingrímsfjarðarheiði eru 3 stig,“ segir Hafdís.

Og jafnvel þótt farið sé inn á landshlutakortið og Hólmavík sýnd gefi það heldur ekki rétta mynd.

„Veðurstöðin er ekki einu sinni staðsett inn í bænum heldur út í vík sem heitir Skeljavík og þar er vindasamara. Hólmavík er mjög veðursæll staður, í það minnsta er mikið hægviðri hérna,“ segir Hafdís, sem er Strandamaður í húð og hár, fædd og uppalin á Broddadalsá við Kollafjörð en hefur síðustu tvo áratugi búið á Hólmavík og starfar þar í rækjuvinnslunni Hólmadrangi.

Steingrímsfjarðarheiði í dag, eins og hún birtist á vefmyndavél Vegagerðarinnar. Sjálfvirka veðurstöðin sést í forgrunni.Vegagerðin/Vefmyndavél.

Hún segir að á flestum stöðum á landinu sé aðalveðurstöðin sýnd á þéttbýlisstað og fer yfir röðina: Reykjavík, Hvanneyri, Stykkishólmur, Patreksfjörður, Bolungarvík, Blönduós, Akureyri, Húsavík, Raufarhöfn, Egilsstaðir, Höfn.

„Það segir sig sjálft að fólk tekur ekki Strandasvæðið sem fyrsta kost. Það er margbúið að biðja Veðurstofu Íslands að breyta þessu en það er óskiljanleg tregða í gangi þar,“ segir Hafdís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×