Innlent

Forsetinn skilar inn framboði sínu til forseta

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Forsetinn mætir hér í dómsmálaráðuneytið til þess að skila inn framboði sínu.
Forsetinn mætir hér í dómsmálaráðuneytið til þess að skila inn framboði sínu. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mætti í dómsmálaráðuneytið klukkan 13:30 í dag til þess að skila inn framboði sínu til forseta. Framboðsfrestur rennur út á miðnætti í kvöld.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu mun Guðmundur Franklín Jónsson skila framboði sínu til forseta inn til ráðuneytisins síðar í dag.

Forsetakosningarnar fara fram laugardaginn 27. júní. Samkvæmt auglýsingu á vef stjórnarráðsins um framboð og kjör forseta Íslands skal framboðum til forsetakjörs skilað til dómsmálaráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag.

Skal forsetaefni hafa meðmæli minnst 1.500 kosningabærra manna en mest 3.000 og skiptast þau á ákveðinn hátt eftir landsfjórðungum sem nánar er útlistað í auglýsingu stjórnarráðsins.

Guðni var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 2016. Hann hlaut 71.356 atkvæði eða 39,1% gildra atkvæða.

Auk hans voru þau Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson í kjöri.


Tengdar fréttir

Karlarnir fimm sem vilja taka slaginn við Guðna

Arngrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson, Guðmundur Franklín Jónsson Kristján Örn Elíasson og Magnús Ingiberg Jónsson. Þetta eru þeir fimm sem standa nú í undirskriftasöfnun til að geta boðið fram krafta sína til embættis forseta Íslands næstu fjögur árin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.