Innlent

Óska eftir heil­brigðis­starfs­fólki á út­kalls­lista vegna veirunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Kórónuveiran á bráðamótökunni í Fossvogi
Kórónuveiran á bráðamótökunni í Fossvogi

Heilbrigðisyfirvöld hérlendis hafa óskað eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks úr hópi lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í svokallaða bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Er það gert vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og þeirra áhrifa sem hún mun hafa á heilbrigðiskerfið.

Á vef stjórnarráðsins segir að leitað sé að fólki sem hafi aðstæður og sé reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.

Mönnunarvandi fyrirsjáanlegur

Búist er við að veiran muni hafa þau áhrif að heilbrigðiskerfið muni standa frammi fyrir mönnunarvanda vegna veikindafjarvista eða fjarvista starfsfólks sem þarf að sitja tímabundið í sóttkví.

Með því að koma á fót bakvarðasveit eins og hér um ræðir, með lista yfir heilbrigðisstarfsfólk sem er reiðubúið til að hlaupa í skarðið ef á reynir, standa vonir til þess að heilbrigðisstofnanir geti mannað í stöður með hraði þegar á þarf að halda.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, heilbrigðisráðherra, landlæknir, sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri standa saman að yfirlýsingu um bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar og er hún hér meðfylgjandi. Stefnt er að því að ræða við félög fleiri heilbrigðisstétta á næstu dögum um mögulega aðkomu þeirra að bakvarðasveitinni,“ segir í tilkynningunni.

Verið að skoða réttarstöðu

Heilbrigðisráðuneytið hefur útbúið rafrænt skráningarform fyrir þá sem eru reiðubúnir að skrá sig í bakvarðasveitina. Er verið að skoða réttarstöðu þeirra sem gefa sig fram til þessara starfa.

Leitað er eftir fólki sem geti skuldbundið sig tímabundið í allt að tvo mánuði, hvort sem um er að ræða fullt starf, hlutastarf eða tímavinnu. Munu laun taka mið af kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags á viðkomandi stofnun.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×