Erlent

Eigin­kona Car­los Ghosn segir það lygi að hann hafi flúið land í hljóð­færa­tösku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Carlos Ghosn með konu sinni Carole á meðan allt lék í lyndi.
Carlos Ghosn með konu sinni Carole á meðan allt lék í lyndi. vísir/epa

Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Renault og Nissan, sem flúði frá Japan til Líbanon rétt fyrir áramót, mun ekki tjá sig neitt opinberlega um flóttann fyrr en í næstu viku.

Eiginkona hans, Carole Ghosn, segir það lygi að hann hafi flúið land í hljóðfæratösku, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.

Ghosn var eitt sinn álitinn hetja í Japan en er nú alræmdur í landinu þar sem hann liggur undir grun um að hafa kerfisbundið vantalið fram tekjur sínar til eftirlitsaðila og misnotað eignir fyrirtækisins í eigin þágu.

Að því er fram kemur í frétt Guardian hyggst Ghosn ræða við fjölmiðla næstkomandi miðvikudag í Beirút, höfuðborg Líbanon.

Fáir munu fylgjast jafnvel með því sem Ghosn mun segja þá en Japanir enda þykir það sæta mikilli furðu að forstjóranum fyrrverandi hafi tekist að flýja frá landinu. Á meðal þeirra sem hafa fordæmt Ghosn fyrir að flýja eru hans eigin lögfræðingar.

Komst frá landi á frönsku vegabréfi

Ghosn hafði verið látinn laus gegn tryggingu í apríl síðastliðnum en var í raun í stofufangelsi í Japan þar sem hann mátti ekki fara frá landinu.

Engu að síður tókst honum að flýja áður en réttarhöldin yfir honum hefjast í heimalandinu, en þau eiga að fara fram í landinu eftir nokkra mánuði.

Ghosn komst frá Japan á franska vegabréfinu sínu. Dómstóll í Japan hafði leyft Ghosn að halda öðru af tveimur frönsku vegabréfunum hans gegn því að vegabréfið yrði í læstum skáp og að lögmenn hans myndu geyma lykilinn.

Sú saga hefur gengið fjöllunum hærra að Ghosn hafi flúið land í hljóðfæratösku. Hann hafi verið fluttur í töskunni af heimili sínu og í einkaþotu á Kansai-alþjóðaflugvellinum í vesturhluta Japans.

Þetta segir Carole, eiginkona hans, að sé lygi. Hún hefur hins vegar neitað að tjá sig eitthvað frekar um flóttann.

Ríkisstjórn Japans hefur hingað til ekki tjáð sig um flóttann en fjölmiðlar hafa fordæmt Ghosn og ýmsir málsmetandi aðilar í japönsku samfélagi.

Þá hefur líbanska forsetaembættið neitað því að forsetinn Michel Aoun hafi tekið á móti Ghosn þegar hann kom til landsins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×