Fótbolti

Búningsklefinn angaði af áfengi eftir Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fabio Capello og Ronaldo áttu ekki skap saman.
Fabio Capello og Ronaldo áttu ekki skap saman. getty/Angel Martinez

Fabio Capello segir að Ronaldo sé hæfileikaríkasti leikmaður sem hann hafi þjálfað. Hann hafi hins vegar verið mjög erfiður.

Capello tók öðru sinni við Real Madrid sumarið 2006 en þá var Ronaldo hjá liðinu. Þeir náðu engan veginn saman og um mitt tímabil var Ronaldo seldur til AC Milan.

„Hæfileikaríkasti leikmaður sem ég þjálfaði var Ronaldo,“ sagði Capello við Sky Sport Italia. „En á sama tíma var hann sá leikmaður sem skapaði mest vandræði í búningsklefanum.“

Capello segir að Ronaldo hafi ekki þótt leiðinlegt að skemmta sér og fá sér í tána.

„Hann hélt partí og alls konar. Einu sinni sagði Ruud van Nistelrooy að búningsklefinn angaði af áfengi. Þegar Ronaldo fór til Milan byrjuðum við að vinna leiki. En hvað hæfileika varðar var hann í sérflokki,“ sagði Capello.

Ítalinn gerði Real Madrid að Spánarmeisturum 2007 en þrátt fyrir það var honum sagt upp.

Ronaldo lék með Real Madrid á árunum 2002-07 og skoraði 104 mörk í 177 leikjum fyrir Madrídarliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×