Erlent

Algert samkomu- og ferðabann gildir nú um gjörvalla Ítalíu

Andri Eysteinsson skrifar
Allir Ítalir falla nú undir ferðabanniðþ
Allir Ítalir falla nú undir ferðabanniðþ Vísir/Getty
Ítölsk stjórnvöld hafa ákveðið að ferðabann sem í fyrstu var sett á íbúa norður-Ítalíu, skuli gilda um landið í heild sinni. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, greindi frá aðgerðunum í ávarpi sem sýnt var í beinni útsendingu. Politico greinir frá.

Conte sagði að aðgerðirnar, sem taka gildi á morgun, séu til þess fallnar að vernda viðkvæmustu hópa samfélagsins. Eingöngu yrði heimilt að ferðast vegna nauðsynja við vinnu eða heilsufarsástands. Þá hefur samkomubann einnig tekið gildi og öllum íþróttaviðburðum landsins verið frestað.

Aðgerðirnar verða í gildi til 3.apríl næstkomandi, það þýðir að næstu vikurnar verður skólastarfi hætt á öllum námsstigum og kvikmyndahús, leikhús og líkamsræktarstöðvar munu loka.

Ferðabannið tók í fyrstu gildi í Langbarðalandi, héraðinu þar sem stórborgina Mílanó er að finna. Einnig tók það gildi í fjórtán öðrum sýslum í mið- og norðurhluta landsins.

„Við höfum ekki tíma til að aðlagast, tölfræðin segir okkur að fjöldi smitaðra fer hækkandi, fólk hefur látist og er á gjörgæsludeild. Við verðum að breyta til, núna,“ sagði Conte í ávarpi sínu.

Fjöldi látinna á Ítalíu vegna kórónuveirunnar tók kipp í dag en fjöldi látinna hækkaði um 93 í 463. Að Kína undanskildu hefur kórónuveiran haft hvað mest áhrif á Ítalíu. Alls hafa yfir 7,800 manns greinst með kórónuveiruna þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×