Fótbolti

Vilja leyfa meisturunum að fagna með stuðnings­mönnum fái þeir grænt ljós

Anton Ingi Leifsson skrifar
Trent Alexander-Arnold fagnar ásamt Jordan Henderson.
Trent Alexander-Arnold fagnar ásamt Jordan Henderson. Vísir/Getty

Richard Masters, framkvæmdastjóri ensku úrvalsdeildarinnar, vonast til þess að liðið sem verði enskur meistari geti fagnað titlinum með stæl þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn sem nú geysar um allan heiminn.

Liverpool er einungis tveimur sigrum frá því að verða enskur meistari í fyrsta sinn í þrjátíu ár en enskur fótbolti hefur verið á ís í rúma tvo mánuði vegna kórónuveirunnar.

Masters segir í viðtali í dag að hann vonast til þess að liðið sem verði enskur meistari, sem er ansi líklegt að verði Liverpool, geti fagnað með stuðningsmönnum sínum en það þurfi ríkisstjórnin og heilbrigðisyfirvöld að ákveða.

„Ef það er hægt, þá værum við til í það. Þú vilt gefa leikmönnunum og starfsfólkinu augnablikið sem þau hafa unnið svo hart að. Við munum reyna það, nema það væri ekki hægt af öryggisvandamála,“ sagði Masters í dag aðspurður hvort meistararnir gætu fagnað með stuðningsmönnum sínum.

Öll tuttugu lið enska boltans hittust á fundi í dag þar sem var fundað um að reyna ætti að klára deildina. Liðin munu að öllum líkindum byrja að æfa í litlum hópum á næstu vikum og vonast er til þess að deildin fari aftur af stað um miðjan júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×