Innlent

Ætla að „lúra“ á ákvörðun um makrílmálsókn

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.
Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Engin ákvörðun var tekin um hvort málsókn Vinnslustöðvarinnar gegn íslenska ríkinu vegna úthlutunar makrílkvóta verði haldið til streitu á stjórnarfundi sem fór fram síðdegis í dag. Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri, segir stjórnina „ætla aðeins að lúra á þessu“ og hún ætli ekki að taka ákvörðun í fljótfærni. Framkvæmdastjóri Hugins vill halda málinu áfram.

Fimm útgerðir af sjö sem áttu aðild að málsókn gegn ríkinu vegna úthlutunar makrílaflaheimilda tilkynntu í gær að þær ætluðu að falla frá henni. Saman höfðu útgerðirnar sjö krafið ríkið um skaðabætur upp á rúma tíu milljarða króna. Vísuðu útgerðirnar til ástandsins í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins um ákvörðun sína um að falla frá málinu.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hugins ehf., segir við Vísi að ekki hafi verið haldinn formlegur stjórnarfundur um málið enn sem komið er en hans persónulega skoðun sé að halda málinu gegn ríkinu áfram. Hann býst við að stjórnin ræði málið einhvern tímann á næstu dögunum.

Gefa sér meiri tíma til að ræða málið

Stjórn Vinnslustöðvarinnar fundaði í dag en Sigurgeir segir að ákvörðun hafi ekki verið tekin um hvort að hún vilji halda málsókninni til streitu.

„Við ætlum aðeins að lúra á þessu bara, hvað við gerum, hvernig við förum í þetta,“ segir Sigurgeir við Vísi.

Fyrirtækið ætli að gefa sér meiri tíma í að fara yfir málið.

„Ég vona það að við náum því á morgun, og ef ekki á morgun þá bara strax eftir helgi,“ segir hann.

Vinnslustöðin er hluthafi í Huginn en Sigurgeir segir að afstaða stjórnar Hugins hafi ekki áhrif á hvernig Vinnslustöðin nálgast málsóknina.

„Auðvitað erum við hluthafar í Huginn en Vinnslustöðin ræður ekki Huginn. Huginn tekur bara sína sjálfstæðu ákvörðun óháð okkar en það er ekkert því að leyna að þræðirnir eru sterkir á milli,“ segir Sigurgeir.


Tengdar fréttir

Fimm útgerðir falla frá málsókn um skaðabætur

Sjávarútvegsfyrirtækin Eskja, Gjögur, Ísfélag Vestmannaeyja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes hafa ákveðið að falla frá málsókn á hendur íslenska ríkinu vegna meints fjártjóns við úthlutum aflaheimilda í makríl fyrr á þessum áratugi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×