Innlent

Skoða að setja ferðamenn í sóttkví við komuna til landsins

Sylvía Hall og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa

Sóttvarnalæknir telur mikilvægt að hömlur séu settar á erlenda ferðamenn sem koma til landsins. Meðal annars er verið að skoða hvort ferðamenn sem koma til landsins þurfi að fara í tveggja vikna sóttkví.

Sú regla er nú í gildi að allir einstaklingar sem koma til landsins og eru búsettir á Íslandi þurfi að fara í sóttkví. Erlendir ferðamenn geta hins vegar komið til landsins og ferðast um án þess að fara í sóttkví við komuna. Sóttvarnalæknir á von á að þessu verði breytt og hömlur settar á erlenda ferðamenn

„Ég tel mikilvægt að við könnum allar leiðir til þess að þetta gildi, einhvers konar hömlur muni gilda líka um þá til þess að tryggja það að við fáum ekki smit hingað til Íslands,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Starfshópur skoðar nú hvernig þetta verður útfært og á Þórólfur von á að það liggi fyrir á næstu dögum. Meðal annars sé verið að skoða að ferðamenn sem koma til landsins fari í sóttkví við komuna í tvær vikur. 

„Ég bendi á að það eru mörg lönd með þetta til dæmis eins og sóttkví. Danmörk, Noregur, fólk er lokað inni ef það fer til Frakklands og það þarf að sæta útgöngubanni. Þannig það eru mjög mismunandi kvaðir sem að hvíla á fólki hvort sem þau eru búsett í þessum löndum eða hvort þau eru að koma sem ferðamenn,“ segir Þórólfur.

Ennþá tæplega þrjár vikur í 4. maí

Tólf greindust síðastliðinn sólarhring með kórónuveiruna. Sóttvarnalæknir segir að búast megi við að þeim sem greinast með veiruna haldi áfram að fækka. 

Engu að síður óttast Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að bakslag geti komið þar sem landsmenn virðast vera meira á ferli nú síðustu daga en áður. 

„Við feng­um svolítið til­finn­ing­una sérstaklega í gær að svona fólki væri létt og við átt­um svo sem von á því að fólki yrði létt að sjá svona hvaða væri en við áttum kannski ekki von á því endi­lega að fólk byrjaði að hugsa að það væri kom­inn 4. maí. Það eru enn þá tæp­ar þrjár vik­ur þangað til. Þannig að við verðum bara að bíða og sjá. Við erum enn þá að berj­ast við þetta af þeim krafti sem við erum búin að vera að gera núna síðustu vikurnar.“


Tengdar fréttir

Ekki kominn 4. maí og mögulega hægt að knúsast í júlí

Víðir Reynissonn, yfirlögregluþjónn, var með tvo punkta á daglegum upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirufaraldursins. 4. maí er ekki kominn og hann vonar að hægt sé að fallast í faðma á nýjan leik í júlí.

Þessum takmörkunum verður aflétt 4. maí

Fjöldamörk samkomubanns verða hækkuð úr 20 í 50 manns, opnað verður fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum, framhalds- og háskólar verða opnaðir með takmörkunum og heimilt verður að hefja á ný ýmsa þjónustu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×