Erlent

Kveikt í tveimur flóttamannamóttökum á Lesbos á viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldur var kveiktur í húsæði þar sem flóttafólk hélt til á eyjunni Lesbos.
Eldur var kveiktur í húsæði þar sem flóttafólk hélt til á eyjunni Lesbos. AP/Alexandros Michailidis

Búið er að kveikja í tveimur flóttamannamóttökum á grísku eyjunni Lesbos á einni viku. Lesbos er skammt frá ströndum Tyrklands og þar halda nú rúmlega 21 þúsund flóttamenn til. Spenna hefur myndast á milli flóttafólksins og heimamanna.

Spenna hefur einnig myndast á milli Grikklands og Tyrklands eftir að Tyrkir ákváðu að hætta að stöðva för flóttafólks til Evrópu. Yfirvöld Tyrklands hafa verið sökuð um að hvetja flóttafólk til að fara til Evrópu og jafnvel um að skutla þeim að landamærum Grikklands.

Grikkir hafa sent fjölda lögregluþjóna til landamæranna og hafa þeir verið sakaðir um ofbeldi í garð flóttafólks en til átaka hefur komið á milli þeirra. Grikkir hafa þar að auki sakað tyrkneska lögregluþjóna um að skjóta táragasi yfir landamærin og að grískum lögregluþjónum.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, kallaði eftir því í gær að Grikkir opnuðu landamæri sín og leyfðu fólkinu að fara í gegnum landið. Þau ætluðu sér ekki að stoppa í Grikklandi.

Tyrkir gerðu samkomulag við forsvarsmenn Evrópusambandsins árið 2016, sem fólst í því að Tyrkir héldu flóttafólki þar í landi í skiptum fyrir fúlgur fjár. Það samkomulag er ekki lengur virkt og báðar fylkingar saka hina um að brjóta gegn skilmálum þess.

Viðhorf Grikkja til flóttafólks hefur gerbreyst frá árinu 2015 þegar milljónir flóttamanna reyndu að komast til Evrópu. Margir þeirra strönduðu í Grikklandi og hafa einhverjir haldið þar til í langan tíma.

Íbúar bæja og borga við landamæri Grikklands og Tyrklands hafa myndað nokkurs konar varðsveitir og verja nóttum í að leita að flóttafólki sem reynir að lauma sér inn í landið. Eitthvað hefur verið um að heimamenn hafi ráðist á hjálparstarfsmenn og blaðamenn og sakað þá um að hjálpa flóttafólki að komast til grísku eyjanna í Eyjahafi, samkvæmt frétt New York Times.


Tengdar fréttir

Grikkir hættir að taka á móti hælisumsóknum

Yfirvöld Grikklands hafa lokað landamærum ríkisins við Tyrkland og eru hætt að taka á mótti hælisumsóknum vegna mikils fjölda flóttafólks sem vill komast frá Tyrklandi til Grikklands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×