Innlent

„Við ætluðum að þjónusta heilbrigðiskerfið, ekki vinna vísindarannsókn“

Samúel Karl Ólason skrifar
Kári sagðist ekki geta skrifað umsókn um leyfi til að framkvæma vísindarannsókn, því ekki standi til að framkvæma vísindarannsókn. Það hafi aldrei staðið til.
Kári sagðist ekki geta skrifað umsókn um leyfi til að framkvæma vísindarannsókn, því ekki standi til að framkvæma vísindarannsókn. Það hafi aldrei staðið til. Vísir/Vilhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir afstöðu Vísindasiðanefndar, og annarra, varðandi aðkomu fyrirtækisins að skimun fyrir kórónuveirunni endurspegla afstöðu sem starfsmenn ÍE hafi þurft að takast á við í 23 ár. Það sé að allt sem fyrirtækið geri sé grunsamlegt og beri að skoða betur.

Þetta sagði Kári í athugasemd við Facebookfærslu Stefáns Pálssonar, sagnfræðings og þungavigtarmanns í Vinstri grænum, þar sem Stefán gefur í skyn að með því að bjóðast til að skima sýni fyrir heilbrigðiskerfið væri Kári að reyna að koma höndum yfir lífsýni fólks.

Kári sagði frá því fyrr í kvöld að ekkert yrði af verkefninu en Alma Möller, landlæknir sagði frá því á blaðamannafundi í gær og virðist sem að boði ÍE hafi verið tekið á jákvæðan máta.

Ástæðan fyrir því að ekkert verði af kórónuskimuninni er, samkvæmt Kára, að Vísindasiðanefnd og Persónuvernd hafi skilgreint skimunina sem vísindarannsókn og að ÍE þyrfti að sækja um leyfi.

Sjá einnig: Ekkert verður af kórónuskimun Íslenskrar erfðagreiningar

Kári sagðist ekki geta skrifað umsókn um leyfi til að framkvæma vísindarannsókn, því ekki standi til að framkvæma vísindarannsókn. Það hafi aldrei staðið til.

„Við buðumst til þess að sinna ákveðnum þætti viðbragðanna við faraldrinum sem heilbrigðiskerfið er illa í stakk búið til þess að sinna. Við ætluðum að þjónusta heilbrigðiskerfið, ekki vinna vísindarannsókn,“ skrifaði Kári.

Í yfirlýsingu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að aldrei hafi staðið til að sýni sem hefðu komið til vegna skimunarinnar hefðu farið í lífssýnabanka fyrirtækisins, enda væri slíkt ekki í samræmi við lög.

Einungis hafi verið boðin fram klínísk aðstoð við að taka og greina sýni úr fólki sem er með einkenni sem gætu bent til veirusýkingar. Það átti að leiða í ljós hvort veiran væri að stökkbreytast.

„Íslensk erfðagreining greinir nú þegar um eitt þúsund sýni á ári frá Landspítalanum þar sem grunur leikur á sjaldgæfum erfðasjúkdómum eða veikindi eru af óþekktum orsökum. Sú samvinna hefur ekki verið leyfisskyld,“ segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×