Innlent

Mikil mildi að ekki varð tjón á bókum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Vatn flæddi niður með veggjum inni á bókasafni kirkjunnar. Ekkert tjón varð á bókum.
Vatn flæddi niður með veggjum inni á bókasafni kirkjunnar. Ekkert tjón varð á bókum. SKÁLHOLT

Mikill vatnsleki er í turni Skálholtsdómkirkju. Viðgerðum verður hrint af stað sem áætlað er að kosti tæpar 100 milljónir króna.

Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti hefur lengi haft áhyggjur af leka í kirkjunni en samkvæmt ástandsskýrslu frá árinu 2015 er þörf á viðgerðum á þaki og gluggum á efri hæð kirkjunnar.

„Þessi leki hefur verið mikið áhyggjufni því það hefur alltaf lekið svolítið niður og alveg niður í kirkju. Það er leki í veggjum og niður með rennum sem liggja innan húss í turninum. Það er vandamálið. Svo er kominn svo mikill mosi í steinflísar á þakinu en það var einmitt mosatorf sem stíflaði rennuna og sprengdi hana,“ sagði Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti.

Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti hefur lengi haft áhyggjur af leka í kirkjunni en samkvæmt ástandsskýrslu frá árinu 2015 er þörf á viðgerðum á þaki og gluggum á efri hæð kirkjunnar.SKÁLHOLT

Þegar Kristján mætti til kirkju fyrir nokkru var lekinn orðinn ansi mikill.

„Þá mætti mér bara vatn á gólfinu fyrir framan og inni á bókasafninu á báðum hæðum,“ sagði Kristján.

Flætt hafði inn á gólfið fyrir ofan bókasafnið.

„Þar hafði stíflast og bilað niðurfall. Djúpt vatn var á efri hæð kirkjunnar sem flæddi niður með rásum og veggjum og meðal annars niður með rafmagsnssnúru niður á safnið en ekki á sjálfar bækurnar sem betur fer,“ sagði Kristján.

Engar skemmdir urðu á bókum. Kristján sjálfur gekk í málið og gerði við rennu til bráðabirgða og hleypti vatninu rétta leið.

Viðgerðum verður hrint af stað sem áætlað er að kosti tæpar 100 milljónir króna.

„Við stefnum svo á að allt verði klárað fyrir sextugsafmæli kirkjunnar árið 2023 en ég vona svo sannarlega að það verði byrjað á því að gera við lekann strax í sumar,“ sagði Kristján.

Skálholtsdómkirkja var vígð árið 1963.Þjóðkirkjan


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×