Innlent

Fer ekki saman að segja fólki upp og nýta hlutabótaúrræði á sama tíma segir forstjóri Vinnumálastofnunar

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Forstjóri Vinnumálastofnunar segir alls ekki fara saman að segja upp starfsfólki og nýta hlutabótaúrræði stjórnvalda á uppsagnartímanum. Fyrirtæki sem hugsanlega hafi miskilið þetta eru hvött til að draga uppsagnir til baka.

Samtök atvinnulífsins, ASÍ og Vinnumálastofnun hafa í gær og í morgun fundað um álitaefni sem snýr að því hvort gera megi samning um hlutaatvinnuleysisbætur á uppsagnartíma. Dæmi eru um að fyrirtæki, sem hafa sagt upp starfsfólki, nýti hlutabótaúrræðið á uppsagnartímabilinu og dragi þannig úr kostnaði við að greiða uppsagnarfrest.

„Við höfum komist að niðurstöðu hérna hjá stofnuninni. Við höfum bara verið að kasta á milli okkar skoðunum, aðilar vinnumarkaðarins og við og niðurstaðan okkar er sú að þetta fari alls ekki saman,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Sjá einnig:  Hvetja fyrirtæki sem hafa „misskilið reglurnar“ til að draga uppsagnir til baka

Félags- og barnamálaráðherra tekur undir túlkun stofnunarinnar. Samtök atvinnulífsins hafa túlkað lögin með öðrum hætti. Unnur hvetur þau fyrirtæki sem hugsanlega hafi brugðið á þetta ráð til að endurskoða.

„Annað hvort að draga uppsagnirnar til baka ef að þau geta og vilja hafa fólk á minnkuðu starfshlutfalli. Eða þá að því miður verða þau kannski að taka skrefið til fulls og segja upp sem er náttúrlega afar leitt en tilgangur þessa ákvæðis, sem er til bráðabyrgða í tvo og hálfan mánuð var að auka möguleika fólks, atvinnurekenda og starfsfólksins til þess að viðhalda sínu ráðningarsambandi, ekki til þess að láta uppsagnarfrestinn líða. Því miður það var bara ekki tilgangurinn,“ segir Unnur.

Hafi einhver fyrirtæki misskilið reglurnar eða meðvitað brugðið á þetta ráð muni stofnunin alltaf komast að því þegar fram líða stundir.

„Okkar túlkun er þessi og ef að fólk er ósátt við hana þá verður bara að kæra slíka niðurstöðu þegar fyrir liggur stjórnsýsluákvörðun. Ef við þurfum að synja fólki um greiðslur í minnkuðu starfshlutfalli vegna þess að það er einnig á uppsagnarfresti þá er hægt að kæra þá ákvörðun og svo verður bara að sjá til þegar það liggur fyrir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×