Fótbolti

Viðurkennir mistök í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2016

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ósáttir leikmenn Atlético Madrid hópast að Mark Clattenburg í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir fjórum árum.
Ósáttir leikmenn Atlético Madrid hópast að Mark Clattenburg í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir fjórum árum. getty/Clive Rose

Enski dómarinn Mark Clattenburg viðurkennir að hafa gert mistök í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2016 þar sem Madrídar-liðin Real og Atlético mættust. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en Real Madrid vann í vítaspyrnukeppni, 5-3.

Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, kom sínum mönnum yfir í fyrri hálfleik. Clattenburg segir að markið hefði ekki átt að standa vegna rangstöðu.

„Real Madrid var 1-0 yfir í hálfleik vegna marks sem var tæp rangstaða. Við áttuðum okkur á því í hálfleik. Þetta var erfið ákvörðun og aðstoðarmaður minn missti af þessu,“ sagði Clattenburg.

„Snemma í seinni hálfleik gaf ég Atlético vítaspyrnu. Pepe [leikmaður Real Madrid] var æfur og sagði við mig að þetta væri ekki víti. Þá sagði ég við hann að fyrsta markið hefði ekki átt að standa. Þá þagnaði hann. Þetta hljómar kannski skringilega því tvær rangar ákvarðanir samsvara ekki einni réttri. Dómarar hugsa ekki þannig en leikmenn gera það. Ég vissi að ef ég myndi segja þetta við Pepe myndi hann róast.“

Antoine Griezmann skaut í slá úr vítaspyrnunni en varamaðurinn Yannick Carrasco jafnaði fyrir Atlético ellefu mínútum fyrir leikslok. Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma og framlengingu og því réðust úrslitin í vítakeppni eins og áður sagði. Leikmenn Real Madrid skoruðu þar úr öllum sínum spyrnum og fögnuðu Evrópumeistaratitlinum.

Clattenburg dæmdi ekki bara úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2016 heldur einnig úrslit Evrópumótsins þar sem Portúgal vann Frakkland, 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×