Íslenski boltinn

Topp 5 í kvöld: Atli Viðar, Halldór Orri og Ingimundur Níels segja frá uppáhalds mörkunum sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Viðar Björnsson segir frá eftirlætis mörkunum sínum í Topp 5 í kvöld.
Atli Viðar Björnsson segir frá eftirlætis mörkunum sínum í Topp 5 í kvöld. vísir/bára

Annar þáttur Topp 5 er á dagskrá Stöðvar 2 Sports í kvöld. Þátturinn, sem er í umsjá Guðmundar Benediktssonar, hefst klukkan 20:00.

Í þáttunum velja þrír leikmenn fimm uppáhalds mörkin sín á ferlinum og ræða um þau.

Í fyrsta þættinum í kvöld ræða þeir Atli Viðar Björnsson, Halldór Orri Björnsson og Ingimundur Níels Óskarsson um sín uppáhalds mörk.

Hér fyrir neðan má sjá Halldór Orra ræða um mark sem hann skoraði fyrir Stjörnuna gegn Fylki sumarið 2010 og fræg fagnaðarlæti eftir markið.

Klippa: Topp 5 - Halldór Orri

Atli Viðar Björnsson (fæddur 1980) er þriðji markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi og sá áttundi leikjahæsti. Atli hóf ferilinn með Dalvík en gekk í raðir FH fyrir tímabilið 2001. Hann lék með FH allt þar til hann lagði skóna á hilluna 2018 ef frá er talið tímabilið 2007 þegar hann var í láni hjá Fjölni.

Atli varð átta sinnum Íslandsmeistari með FH og einu sinni bikarmeistari. Hann skoraði 113 mörk í 264 leikjum í efstu deild. Enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk fyrir eitt og sama félagið í efstu deild. Atli fékk gullskóinn 2013, silfurskóinn 2009 og 2011 og bronsskóinn 2010. Atli lék fjóra A-landsleiki.

Halldór Orri Björnsson (fæddur 1987) er markahæsti leikmaður Stjörnunnar í efstu deild með 56 mörk. Hann lék með Stjörnunni til 2013 þegar hann gekk í raðir Falkenberg í Svíþjóð. Hann lék einnig nokkra leiki sem lánsmaður með Pfullendorf í Þýskalandi 2010. Halldór Orri gekk aftur í raðir Stjörnunnar 2015 og lék með liðinu í tvö ár. Hann fór svo til FH 2017 og lék með Fimleikafélaginu í þrjú ár, áður en hann sneri aftur til Stjörnunnar í vetur.

Halldór Orri hefur skorað 59 mörk í 188 leikjum í efstu deild. Hann lék tvo A-landsleiki á árunum 2012-14.

Ingimundur Níels Óskarsson (fæddur 1986) hóf ferilinn í Fjölni en gekk í raðir KR 2007. Hann fór til Fylkis á miðju tímabili 2008 og átti þar sín bestu ár á ferlinum. Ingimundur lék með FH á árunum 2013-14 en fór svo aftur í Fylki. Á miðju tímabili 2016 fór hann aftur til Fjölnis þar sem hann lék til 2018.

Ingimundur skoraði 50 mörk í 191 leik í efstu deild. Hann fékk bronsskóinn 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×