Starfsmanni flugfélagsins American Airlines hefur verið sagt upp störfum tímabundið eftir að til ágreinings kom vegna barnavagns. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Farþegi í vél flugfélagsins, sem fljúga átti frá alþjóðaflugvellinum í San Fransisco í Kaliforníu fylki í Bandaríkjunum til Dallas í Texas, hlóð upp myndbandi af atvikinu. Farþeginn sagði að starfsmaður American Airlines hefði hrifsað barnavagninn með offorsi úr höndum móður, sem var einnig farþegi í flugvélinni, og næstum hæft barn hennar.
Í myndbandinu er móðir barnsins greinilega í uppnámi og aðrir farþegar og starfsmenn vélarinnar hafa skorist í leikinn.
Í tilkynningu frá flugfélaginu sagði að „myndbandið gæfi ekki rétta mynd af gildum félagsins.“ Þá kom einnig fram að félagið væri miður sín yfir því sem fram fór í vélinni.
Ekki er langt síðan flugfélagið United Airlines lenti í vandræðum vegna farþega sem dreginn var út úr vél félagsins með valdi. Þá var annar farþegi flugvélagsins bitinn af sporðdreka í miðju flugi.
Konan og fjölskylda hennar voru færð upp í fyrsta farrými annarrar flugvélar og komust að lokum til Dallas.

