Enski boltinn

Schmeichel ráðlagði Sir Alex að kaupa Van der Sar árið 1999

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Peter Schmeichel í sínum síðasta leik fyrir Man Utd, úrslitaleiknum fræga gegn Bayern Munchen 1999.
Peter Schmeichel í sínum síðasta leik fyrir Man Utd, úrslitaleiknum fræga gegn Bayern Munchen 1999. Mynd/Nordic Photos/Getty

Manchester United goðsögnin Peter Schmeichel kveðst hafa mælt með Edwin Van der Sar sem arftaka sínum þegar Schmeichel yfirgaf enska stórveldið árið 1999.

Þetta kemur fram í svari Schmeichel við fyrirspurn Hjörvars Hafliðasonar á Twitter í dag.

Sir Alex Ferguson, stjóri Man Utd, á þessum tíma fór hins vegar ekki að ráðum Schmeichel þar sem Ástralinn Mark Bosnich hóf næstu leiktíð sem aðalmarkvörður Manchester United á meðan Juventus fékk Van der Sar til liðs við sig frá Ajax.

Í kjölfarið varð markvarðarstaðan á Old Trafford talsvert vandamál næstu árin á eftir eða allt til ársins 2005 þegar umræddur Van der Sar var keyptur til félagsins frá Fulham, þar sem hann hafði spilað frá árinu 2001.

Van der Sar átti sex frábær ár með Man Utd; vann ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum, auk þess að vinna Meistaradeild Evrópu einu sinni. Fór Man Utd alls þrisvar sinnum í úrslit Meistaradeildar Evrópu með Van der Sar á milli stanganna og er hann af mörgum talinn besti markvörður í sögu félagsins ásamt Schmeichel sjálfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×