Innlent

Heilsársvegur yfir Öxi efstur á óskalistanum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Signý Óskarsdóttir, skólastjóri Djúpavogsskóla. Með sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sér hún fram á nánara samstarf í skólamálum, sem kallar á betri samgöngur milli byggðanna.
Signý Óskarsdóttir, skólastjóri Djúpavogsskóla. Með sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sér hún fram á nánara samstarf í skólamálum, sem kallar á betri samgöngur milli byggðanna. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Ég mundi vilja sjá betri veg yfir Öxi, heilsárveg þar. Það mundi hjálpa okkur mjög mikið og gleðja.“

Þannig svarar Signý Óskardóttir, skólastjóri Djúpavogsskóla, spurningu í þættinum Um land allt á Stöð 2 um hvað helst þurfi að bæta til að styrkja samfélagið á Djúpavogi.

Þetta er einnig það sem kaupakonan í Bakkabúð, Elísabet Guðmundsdóttir, nefnir en hún á dóttur í heimavist í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Öxi eða Axarvegur nefnist fjallvegurinn milli Skriðdals og Berufjarðar en um hann liggur stysta leiðin milli Fljótsdalshéraðs og Djúpavogs. Það tekur um klukkustund fyrir Djúpavogsbúa að komast til Egilsstaða með því að fara Öxi en ef þessi 532 metra hái fjallvegur er lokaður, og aka þarf firðina eða um Breiðdalsheiði, lengist ferðatíminn um fjörutíu til fimmtíu mínútur.

Frá veginum yfir Öxi.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Betri Axarvegur er ein helsta forsenda sameiningar Djúpavogshrepps við Fljótsdalshérað, Seyðisfjörð og Borgarfjörð eystri, sem samþykkt var í haust, en samkvæmt henni hættir Djúpivogur að vera til sem sjálfstætt sveitarfélag á þessu ári.

Samkvæmt samgönguáætlun, sem nú liggur fyrir Alþingi, er áætlað að 2.800 milljónir króna kosti að byggja upp veginn Um Öxi. Þar er mörkuð sú stefna að verkið verði fjármagnað í samstarfi við einkaaðila og miðað við að ríkið greiði 50 prósent en nánari útfærsla á því liggur ekki fyrir. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að 1.400 milljóna framlag ríkisins komi á árunum 2021 til 2023.

Þátturinn frá Djúpavogi verður endursýndur á Stöð 2 á laugardag, kl. 15.55. Hér má sjá kafla úr þættinum:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.