Innlent

Bændur halda lífi í sveitunum með því að taka fjósin undir ferðamenn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Bragðavöllum í Hamarsfirði. Fjósið og hlaðan, sem búið er að breyta í veitingastað, til hægri. Smáhýsin fjær, íbúðarhúsið til vinstri.
Frá Bragðavöllum í Hamarsfirði. Fjósið og hlaðan, sem búið er að breyta í veitingastað, til hægri. Smáhýsin fjær, íbúðarhúsið til vinstri. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Búháttabreytingin á Bragðavöllum í botni Hamarsfjarðar er lýsandi fyrir þróunina í sveitum á sunnanverðum Austfjörðum. Þar bjóða bræðurnir Ingi og Eiður Ragnarssynir ferðamönnum gistingu í smáhýsum. Jafnframt hefur gamla fjósinu og hlöðunni verið breytt í veitingastað.

„Það er nú bara hobbí-búskapur hérna núna. Það eru orðin hátt í tuttugu ár núna frá því þau hættu að búa hérna, mamma og pabbi, og þetta tók bara við,“ segir Ingi í þættinum Um land allt á Stöð 2.

Ingi Ragnarsson, ferðaþjónustubóndi á Bragðavöllum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Bræðurnir byrjuðu með fyrstu þrjú smáhýsin árið 2014. Húsin eru núna orðin átta talsins með samtals 44 rúmum. Veitingasalurinn í gömlu útihúsunum tekur um eitthundrað manns í sæti.

Ingi segir þó á mörkunum að þetta teljist heilsársrekstur. Veitingastaðurinn er aðeins opinn á sumrin, frá miðjum maí fram í miðjan september. Gistingin er opin allt árið en Ingi segir lítið um að vera yfir veturinn. Sumarið haldi þessu uppi.

Þar sem áður voru kýr á básum og hlaða eru núna veitingasalir fyrir ferðamenn.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Hefðbundinn búskapur í sveitunum sunnan Djúpavogs er raunar orðinn hverfandi.

„Það eru ekki margir bæir hérna eftir, til dæmis í Álftafirðinum, með búskap. Það var einn að hætta núna hérna í haust, á Blábjörgum. Þeim fer fækkandi. En vonandi að þessi bissniss geti haldið lífi í sveitunum. Það er bara mjög gott mál, þannig að þetta leggist ekki alveg í eyði.“

Bragðavellir eru í fagurri fjallaumgjörð Hamarsfjarðar.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

-En sýnist ykkur að þetta geti haldið lífi..

„Þetta heldur klárlega lífi í sveitunum.“

Þetta var fyrri þáttur af tveimur um Djúpavog. Seinni þátturinn verður frumsýndur á Stöð 2 á mánudagskvöld kl. 19.10. 

Hér má sjá viðtalsbrot frá Bragðavöllum:


Tengdar fréttir

Bjartsýni á Djúpavogi með endurreisn Búlandstinds

Viðsnúningur hefur orðið í atvinnumálum á Djúpavogi, íbúum fjölgar og þar ríkir bjartsýni. Störfin í stærsta atvinnufyrirtækinu eru núna orðin fleiri en var fyrir fimm árum þegar tilkynnt var um lokun þess.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.