Erlent

Fyrsta staðfesta tilfelli kórónuveirunnar í Jemen

Sylvía Hall skrifar
Hörmundarástand er í Jemen, skortur er á mat og öllum nauðsynjum og milljónir lifa við hungurmörk
Hörmundarástand er í Jemen, skortur er á mat og öllum nauðsynjum og milljónir lifa við hungurmörk Vísir/Getty

Karlmaður um sextugt hefur greinst með kórónuveiruna sem veldur Covid-19 sjúkdómnum í Jemen. Um er að ræða fyrsta staðfesta tilfellið í ríkinu, sem stendur illa eftir fimm ára borgarastríð.

Alþjóðlegu hjálparsamtökin Oxfam segja það vera áfall að smit sé staðfest í ríkinu og kallaði Alþjóðlega björgunarnefndin (IRC) þetta verstu mögulegu sviðsmyndina. Nú þegar séu aðstæður slæmar og milljónir treysti á mataraðstoð.

Aðeins helmingur spítala í landinu eru nothæfir og eru aðrir sjúkdómar á borð við kóleru, malaríu og beinbrunasótt algengir í landinu. Því muni útbreiðsla kórónuveirunnar aðeins gera illt verra.

Maðurinn sem greindist með veiruna er í stöðugu ástandi og er í einangrun á farsóttarheimili. Höfnin þar sem maðurinn starfaði var lokuð af og aðrir starfsmenn settir í sóttkví.

Lisa Grande, yfirmaður mannúðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði afleiðingarnar geta orðið hörmulegar.

„Við erum búin að óttast þetta í vikur og nú er þetta búið að gerast,“ sagði Grande um smitið. Ástandið í ríkinu sé slæmt eftir stríðsátök undanfarinna ára og fólkið sé mjög viðkvæmt fyrir slíkum smitsjúkdómum.

Vopnahléi var lýst yfir í gær af hersveitum sem leiddar eru af sádi-arabískum herafla og barist hafa við sveitir Húta í Jemen. Vopnahléið er til stuðnings áformum Sameinuðu þjóðanna sem hafa stefnt að því að binda enda á stríðið sem hófst í mars árið 2015.


Tengdar fréttir

Lýsa yfir vopnahléi í Jemen

Hersveitir sem leiddar eru af sádiarabískum herafla og barist hafa við sveitir Húta í Jemen hafa lýst yfir vopnahlé í ríkinu.

Óttast faraldur beinbrunasóttar í Jemen

Fulltrúar Barnaheilla – Save the Children óttast að beinbrunasótt í Jemen geti verið upphaf faraldurs en rúmlega 52 þúsund tilfelli hafa verið skráð í landinu og staðfest eru 192 dauðsföll af völdum sóttarinnar. Af þeim sem hafa látist eru 78 börn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.