Erlent

Vara við því að aflétta takmörkunum of snemma

Sylvía Hall skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Vísir/Getty

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við alvarlegum afleiðingum ef samkomutakmörkunum og útgöngubönnum yrði aflétt of snemma. Þjóðir heimsins ættu að stíga varlega til jarðar í þeim efnum þrátt fyrir erfiðar aðstæður í efnahagsmálum.

Þetta sagði Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri stofnunarinnar, á rafrænum blaðamannafundi í dag. Hann bætti við að þó það væru jákvæðar blikur á lofti í Evrópu og faraldurinn virtist vera í rénun gæti sá árangur orðið að engu ef takmörkunum yrði aflétt of snemma.

Hann benti á að faraldurinn væri enn í mikilli útbreiðslu í öðrum löndum, til að mynda Afríku. Stofnunin ynni að því að gera áætlun hvernig væri best að aflétta þeim samkomutakmörkunum og útgöngubönnum sem eru í gildi víða um heim svo árangurinn yrði ekki að engu.

„Ég veit að einhver lönd eru nú þegar að vinna að því að aflétta útgöngubönnum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vill að sjálfsögðu losna við slíkar takmarkanir eins og allir aðrir en á sama tíma gæti það leitt til hættulegs endurriss í faraldrinum.“

Rúmlega 1,6 milljón hafa greinst með kórónuveiruna sem veldur Covid-19 sjúkdómnum á heimsvísu og yfir hundrað þúsund látið lífið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×