Fótbolti

Stýrir ekki Alfreð eftir kaup á tannkremi

Sindri Sverrisson skrifar
„Ertu að grínast?“ Heiko Herrlich segist hafa brugðist leikmönnum sínum með því að fara af hótelinu til að kaupa krem.
„Ertu að grínast?“ Heiko Herrlich segist hafa brugðist leikmönnum sínum með því að fara af hótelinu til að kaupa krem. VÍSIR/GETTY

Þjálfari Augsburg, liðs Alfreðs Finnbogasonar, stýrir ekki liðinu gegn Wolfsburg á morgun þegar keppni í þýska fótboltanum hefst að nýju. Hann hefði betur sleppt því að fara sjálfur að kaupa tannkrem og húðkrem.

Heiko Herrlich, hinn 48 ára gamli þjálfari Augsburg, viðurkennir að hafa gert mistök með því að fara af hóteli liðsins og brjóta þannig reglur um einangrun. Keppni í þýsku 1. deildinni hefur legið niðri frá því í mars en til þess að geta byrjað aftur um helgina hafa liðin í deildinni samþykkt strangar reglur. Leikmenn og þjálfarar þurfa til að mynda að vera í einangrun á hótelum og mega aðeins vera þar eða á æfingum.

„Ég gerði mistök með því að fara af hótelinu. Þó að ég hafi fylgt öllum leiðbeiningum til að forðast smit þegar ég fór af hótelinu, eins og alltaf, þá get ég ekki breytt þessu,“ sagði Herrlich í yfirlýsingu.

„Ég brást sem fyrirmynd fyrir liðið mitt og almenning. Ég mun þess vegna axla ábyrgð á mínum mistökum. Vegna þeirra mun ég ekki stýra æfingu [í dag] né liðinu gegn Wolfsburg á laugardaginn,“ sagði Herrlich.

Það verður því bið á því að Herrlich stýri Augsburg í fyrsta sinn en hann var ráðinn þjálfari liðsins í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×