Fótbolti

Willum og félagar spila fótbolta í miðjum faraldri

Sindri Sverrisson skrifar
Willum í leik með U-21 árs landsliði Íslands
Willum í leik með U-21 árs landsliði Íslands vísir/bára

Willum Þór Willumsson var í sigurliði BATE Borisov í dag þegar liðið vann Ruh Brest 1-0 í hvítrússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Á meðan að hlé er á keppni í fótbolta í öllum öðrum löndum Evrópu vegna kórónuveirufaraldursins þá hafa stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi ekki sett á samkomubann til að draga úr útbreiðslu hans.

Samkvæmt Daily Mail hefur knattspyrnusambandið í Hvíta-Rússlandi grætt vel á því að enn sé verið að spila í deildinni og selt sjónvarpsréttindi til ellefu landa. Rússneski íþróttasjónvarpsrisinn Match TV keypti til að mynda réttinn fyrir jafnvirði 210.000 Bandaríkjadala, eða yfir 30 milljóna króna, samkvæmt Mail.

Stuðningsmannahópar nokkurra liða, þar á meðal BATE, hafa lýst því yfir að þeir muni sniðganga leiki á meðan að kórónuveirufaraldurinn geisar.

Þetta var fyrsti sigur BATE á tímabilinu en liðið, sem varð í 2. sæti í fyrra, hafði tapað fyrstu tveimur leikjum sínum. Willum var í liði BATE fram á 85. mínútu í dag. Hann fékk gult spjald í leiknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×